Óttast ekki áhrif hrakninga á orðspor til framtíðar

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Mikilvægt er að læra af því þegar ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland fór með 39 ferðamenn á Langjökul í gær, segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Veðurspáin var afleit en samt var farið með fólkið í ferðina. Jóhannes telur að atvikið hafi ekki áhrif á orðspor ferðaþjónustunnar hér á landi til lengri tíma.

„Ég held að efst í huga allra sem að þessu koma er þakklæti til þeirra sem tóku þátt í að koma fólkinu niður, heilu og höldnu. Það hefur enn og aftur sannað mikilvægi kerfisins okkar, að það virkar, björgunarsveitanna og annarra viðbragðsaðila,“ sagði Jóhannes í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag. 

Jóhannes segir að áhrifin á ferðaþjónustuna sem heild hér á landi fari eftir því hversu vel takist að vinna úr málinu. „Auðvitað hefur það alltaf orðspors-áhrif þegar svona hlutir gerast en ef við horfum á heildina þá sjáum við það bara af reynslunni hér, og erlendis líka, að svona einstök atvik, þau hafa ekki endilega langvarandi áhrif á heildarferðaþjónustu í viðkomandi landi. Þau dæmi sem við þekkjum um slíkt eru þá um mjög stór atvik, stórar náttúruhamfarir, hryðjuverk eða slíkt.“ Þegar fólki er bjargað hefur það áhrif til skamms tíma en ekki til framtíðar.

Reynsla leiðsögumanna kom sér vel

Jóhannes telur að þrátt fyrir allt, þá hafi reynsla leiðsögumanna fyrirtækisins skipt miklu máli á þeim tíma sem leið þar til björgunarsveitir komust að hópnum. Nú þurfi að fara yfir það á hvaða forsendum sú ákvörðun að fara í ferðina, var byggð. Það verði skoðað út frá öryggisáætlunum, líkt og ferðamálastjóri hafi sagt.

Fyrirtækjum skylt að skila öryggisáætlun til Ferðamálastofu

Mikilvægt er læra af atvikinu í nótt, að mati Jóhannesar. „Það er þrátt fyrir allt, alveg ótrúlegt hvað okkur hefur tekist vel í gegnum tíðina, í svona óblíðri náttúru og ýmsu sem við þurfum að takast á við í landinu, að taka á móti milljónum ferðamanna án þess að það verði mjög mörg, sem betur fer, svona alvarleg atvik.“ Það sýni hversu vel ferðaþjónustunni hafi tekist að vinna faglega. Síðan í fyrra hafi fyrirtækjum verið skylt að gera öryggisáætlanir og skila þeim til Ferðamálastofu. Ferðin í gær sé undantekningar tilvik sem fara þurfi ofan í saumana á. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi