Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óttast ebólufaraldur í Austur-Kongó

23.05.2019 - 06:45
epa06758268 People buy food from vendors in Mbandaka, north-western Democratic Republic of the Congo, 22 May 2018 (issued 23 May 2018).  Local residents are eating monkey meat and other bush meats that are believed to spread Ebola virus despite warnings by expert to avoid consuming such meats. Two more people have died of Ebola, the Congolese authority said on 22 May. One of the deaths occured in Mbandaka, while another died in the village of Bikoro, where the outbreak was first announced in early May. The new outbreak of Ebola has killed 27 people in the Democratic Republic of the Congo since April.  EPA-EFE/STR
 Mynd: epa
Heilbrigðisyfirvöld í Austur-Kongó hafa miklar áhyggjur af því að ebólafaraldur brjótist út í landinu ef átökum lynnir ekki. Vopnaðar sveitir hafa undanfarið herjað á heilbrigðisstofnanir og -starfsmenn í landinu og valda þannig verulegu tjóni.

Ilunga Kalenga, heilbrigðisráðherra Austur-Kongó, viðraði áhyggjur sínar við blaðamenn í Genf í gær. Al Jazeera hefur eftir honum að stjórnvöld eigi í mestu vandræðum með að halda aftur af útbreiðslu ebólu vegna ítrekaðra árása á lækna og sjúkrahús. Við hverja árás seinki viðbröðgum við útbreiðslunni á sjúkdómnum sem hefur orðið þúsundum að bana á síðustu árum. Síðast varð verulegur ebólafaraldur í vesturhluta Afríku á milli áranna 2014 og 2016. Þá létu yfir 11 þúsund manns lífið af völdum veirunnar.

Nærri tvö þúsund tilfelli hafa greinst í Austur-Kongó síðan ebóla hóf að breiðast út í landinu í ágúst í fyrra. Yfir 1200 hafa látið lífið af völdum hennar að sögn Kalenga. Samkvæmt opinberum tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er nærri þriðjungur hinna látnu börn.

Átak hefur verið í bólusetningu gegn veirunni í landinu, og fengu allt að eitt þúsund manns bóluefni á dag í Butembo héraði áður en vígahópar fóru að herja á heilbrigðisstofnanir. Alls hafa yfir 130 árásir verið gerðar á heilsugæslur og sjúkrahús síðan útbreiðsla ebólu hófst í ágúst, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. 38 hafa látið lífið í árásunum.

Al Jazeera hefur eftir Kalenga að yfir 100 þúsund manns hafi verið bólusett gegn ebóla. Bóluefnið kemur í veg fyrir smit í um 97 prósentum tilfella.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV