
Óttast ebólufaraldur í Austur-Kongó
Ilunga Kalenga, heilbrigðisráðherra Austur-Kongó, viðraði áhyggjur sínar við blaðamenn í Genf í gær. Al Jazeera hefur eftir honum að stjórnvöld eigi í mestu vandræðum með að halda aftur af útbreiðslu ebólu vegna ítrekaðra árása á lækna og sjúkrahús. Við hverja árás seinki viðbröðgum við útbreiðslunni á sjúkdómnum sem hefur orðið þúsundum að bana á síðustu árum. Síðast varð verulegur ebólafaraldur í vesturhluta Afríku á milli áranna 2014 og 2016. Þá létu yfir 11 þúsund manns lífið af völdum veirunnar.
Nærri tvö þúsund tilfelli hafa greinst í Austur-Kongó síðan ebóla hóf að breiðast út í landinu í ágúst í fyrra. Yfir 1200 hafa látið lífið af völdum hennar að sögn Kalenga. Samkvæmt opinberum tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er nærri þriðjungur hinna látnu börn.
Átak hefur verið í bólusetningu gegn veirunni í landinu, og fengu allt að eitt þúsund manns bóluefni á dag í Butembo héraði áður en vígahópar fóru að herja á heilbrigðisstofnanir. Alls hafa yfir 130 árásir verið gerðar á heilsugæslur og sjúkrahús síðan útbreiðsla ebólu hófst í ágúst, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. 38 hafa látið lífið í árásunum.
Al Jazeera hefur eftir Kalenga að yfir 100 þúsund manns hafi verið bólusett gegn ebóla. Bóluefnið kemur í veg fyrir smit í um 97 prósentum tilfella.