Óttast að sannleikurinn um 22. júlí verði afbakaður

Skjáskot úr þáttaröðinni 22. júlí.
 Mynd: NRK

Óttast að sannleikurinn um 22. júlí verði afbakaður

07.01.2020 - 15:10

Höfundar

Höfundar nýrra þátta um hryðjuverkin í Útey 22. júlí 2011 vilja draga upp sannferðuga mynd af voðaverkinu til að koma í veg fyrir afbökun á því sem raunverulega gerðist og útbreiðslu samsæriskenninga. Þættirnir hafa komið illa við þau sem eiga enn um sárt að binda eftir atburðina.

Þáttaröðin heitir 22. júlí og var fyrsti þáttur hennar sýndur á RÚV í gærkvöldi, daginn eftir frumsýningu í norska ríkissjónvarpinu. Þetta er leikin þáttaröð í sex hlutum þar sem fimm aðalpersónum er fylgt eftir sem takast á við afleiðingar mesta grimmdarverks sem framið hefur verið í Noregi frá lokum seinni heimsstyrjaldar. 

Þetta er ein flóknasta og metnaðarfyllsta sjónvarpsframleiðsla sem norska ríkissjónvarpið hefur ráðist í. Rannsóknarvinnan fyrir þættina hófst fyrir um sex árum og fara um 280 leikarar með hlutverk í þeim auk 3.500 aukaleikara.

„Markmið þáttanna er að vera eins nærri sannleikanum og unnt er. Persónurnar eru skáldaðar en atburðirnir sem greint er frá eru raunverulegir,“ segir handritshöfundurinn Sara Johnsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Höfundar þáttanna voru meðvitaðir um þau siðferðilegu álitamál sem gætu komið upp við gerð þáttanna en efuðust aldrei um að þetta væri saga sem þyrfti að segja. „Það er gríðarlega mikilvægt að við hugsum um það sem gerðist, sérstaklega með það í huga hve fljót við erum að gleyma,“ segir hún og leggur áherslu á að hlutverk skapandi greina sé að finna leiðir til að miðla því sem í fyrstu virðist ómögulegt að segja frá.

Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Sara Johnsen og Pål Sletaune, höfundar þáttanna.

Lisbeth Kristine Røyneland, sem fer fyrir stuðningshópi við eftirlifendur og aðstandendur þeirra sem féllu í árásunum, segir að þættirnir séu mjög mikilvægir komandi kynslóðum í Noregi. „Þau sem alast nú upp þekkja ekki til atburðanna 22. júlí og það er því afar mikilvægt að þau fræðist um þá á ólíkum vettvöngum.“ 

Hún segir að þáttaröðin sé mikilvæg fyrir norskt samfélag. „Sérstaklega með það í huga að koma af stað umræðu um þankaganginn sem liggur að baki hryðjuverkinu. Það er aðeins á þann hátt sem samfélagið getur orðið betra.“

Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Randi Johansen Perreu, sem missti son sinn í Útey þykir að NRK hafi ekki komið fram af nærgætni.

Þættirnir hafa burtséð frá því komið illa við þau sem enn eiga um sárt að binda eftir voðaverkin. Randi Johansen Perreu sem missti son sinn í Útey segist ekki geta horft á þættina. Það fékk á hana þegar kynningarstiklur fyrir þá voru sýndar um jólin. „Jólin eru sá árstími sem er mjög erfiður mörgum sem hafa misst ástvini. Það reyndi mjög á þegar stiklurnar minntu mig á atburðina í Útey.“ Henni finnst að NRK hefði átt að láta kynningar á þáttunum bíða þar til jólin voru um garð gengin.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Þið munið aldrei skilja þetta“

Erlent

„Tókum aldrei pólitíska umræðu um Útey“

Hryðjuverk í Noregi

„Lifi með þessum atburðum alla daga“

Sjónvarp

Sjónvarpsþættir um fjöldamorðin í Útey