Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast að Ísland geti dregist inn í átök

25.08.2019 - 18:55
Mynd: RÚV / RÚV
Íslensk stjórnvöld ættu að tala skýrar um frið á norðurslóðum, segir sagnfræðingur. Heræfingar hér á landi rími ekki við boðskap þeirra um að svæðið eigi að vera laust við átök stórvelda. Hann óttast að Ísland geti dregist inn í átök.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er væntanlegur hingað til lands fjórða september og stutt er síðan Mike Pompeo utanríkisráðherra  kom hingað í febrúar. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa gagnrýnt Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra fyrir að upplýsa ekki að ástæðan fyrir komu Pence sé meðal annars að ræða landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og aðgerðir NATO til að bregðast við auknum umsvifum Rússa.

Forseti Rússlands hefur lýst því í yfir að ný gerð kjarnorkueldflaugar sé í vinnslu og nýverið hættu Bandaríkjamenn og Rússar þátttöku í afvopnunarsamningi. Bandaríkjamenn fjármagna nú framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir um sjö milljarða króna. 

Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur segist vona að Ísland sé ekki að dragast inn í vígbúnaðarkapphlaup.

„Við skulum vona ekki en auðvitað er sú hætta fyrir hendi og það er kannski líka það sem maður óttast. Alþjóðapólitíkin er svo ófyrirsjáanleg núna,“ segir Sumarliði.

Hann hvetur íslenska ráðamenn að tala fyrir friði á Norðurslóðum þegar þeir taka á móti varaforseta Bandaríkjanna. 

„Ég held að það sé mikilvægt að íslensk stjórnvöld tali skýrt. Almenn finnst mér að íslensk stjórnvöld hafi mátt vera skýrari í málflutningi sínum,“ segir Sumarliði.

Þau fái þó prik fyrir að hafa þó reynt að halda á lofti mikilvægi friðar á Norðurslóðum. En samræmast heræfingar hér á og við landið því?

„Það finnst mér ekkert sérstaklega. Ég held að það sé óæskilegt. Því lágstemmdari sem pólitíkin er á þessu svæði, því betra. Það er alls ekki hægt að taka undir að það sé til bóta þegar staða mála er svona viðkvæm,“ segir Sumarliði.