Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Óttast að frumvarpið skerði jafnrétti til náms

Mynd: Háskóli Íslands / Háskóli Íslands
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er efins um að þær breytingar sem boðaðar eru á námslánakerfinu í nýju frumvarpi, séu til þess fallnar að auka jafnrétti til náms. Þær geti komið ákveðnum nemendahópum illa; þeim sem ekki fara í hálaunastörf að námi loknu, doktorsnemum, þeim sem nema við dýra háskóla erlendis og nemendum sem glími við veikindi eða þurfi að hægja á námi sínu vegna barneigna.

Geta fengið styrk óháð lántöku

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Í nýju frumvarpi menntamálaráðherra eru boðaðar miklar breytingar á námslánakerfinu. Til stendur að færa það nær því kerfi sem er við lýði annars staðar á Norðurlöndunum. Verði frumvarpið að lögum munu nemendur í lánshæfu námi eiga þess kost að fá styrk upp á 65 þúsund krónur á mánuði í fimm skólaár, uppfylli þeir kröfur um námsframvindu. Þeim gefst svo kostur á að taka lán því til viðbótar en það er engin skylda. Iðnnemar geta fengið styrk frá 18 ára aldri. Nám sem skipulagt er með vinnu verður hins vegar ekki lánshæft. 

Óbeinir styrkir til fámenns hóps lánþega afnumdir

Samtals getur upphæð styrksins numið tæpum þremur milljónum. Hingað til hafa styrkirnir í kerfinu verið óbeinir, í formi vaxta og afskrifta og háðir því að námsmenn taki lán til að byrja með. Þeir hafa einkum gagnast fámennum hópi námsmanna, þeim sem tekið hafa há lán og verið lengi í námi. Nú eiga þeir að gagnast öllum jafnt. Heildarlántökutími verður styttur úr átta árum í sjö og hámarksupphæð láns skilgreind, 15 milljónir. Eru þá bæði framfærslulán og skólagjaldalán undir. 

Þjóðhagslegur ávinningur og betri fjármálavitund

Afborgunarskilmálum verður breytt, vextir hækkaðir úr einu prósenti í um þrjú og tekjutenging afborgana verður afnumin. Þá verður endurgreiðslutími takmarkaður, lánið þarf að greiða upp áður en lánþegi nær 67 ára aldri. Þetta er gert til að bæta heimtur lánasjóðsins og koma í veg fyrir að fólk þurfi að greiða af námslánum fram á elliár, eins og nú er eitthvað um. Heilt yfir á kerfið að hafa þjóðhagslegan ávinning í för með sér, stuðla að bættri námsframvindu, því að stúdentar ljúki námi yngri og á styttri tíma en gengur og gerist í dag. Þá á nýja kerfið að efla fjármálavitund nema, það er, stuðla að því að þeir taki ekki hærri lán en þeir hafa þörf fyrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lánasjóður íslenskra námsmanna.

„Lítur út fyrir að koma flestum vel“

Forsvarsmenn hagsmunasamtaka stúdenta eru byrjaðir að kynna sér breytingatillögurnar. Rebekka Rún Jóhannesdóttir, formaður stúdentafélags HR, segir að fljótt á litið komi þær nemendum skólans ótrúlega vel. Stór hluti nemenda HR komi til með að geta fengið námsstyrk án þess að skuldbinda sig til þess að taka lán. 

„Það er hópur sem kemur ótrúlega vel út úr þessu sem fær bara styrkinn, svo er fólk sem tekur lánið aukalega og þetta lítur bara nokkuð vel út fyrir þann hóp og svo er fólk sem fer í rándýrt nám, þetta kemur niður á þeim en það er náttúrulega ekki eitthvað sem við í HR erum að fara að berjast fyrir, við gætum ekki hagsmuna þeirra. Eins og við lítum á þetta þá voru nemendur í HR ekki að fá jafnmikla styrki og þeir sem voru í námi erlendis þannig að mér finnst vera meira jafnrétti í þessu kerfi.“

Kanna hver áhrifin verða á ákveðna nemendahópa

Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur einnig lýst því yfir að svo virðist sem frumvarpið komi meirihluta nemenda vel. Ráðið á eftir að fara betur yfir áhrif breytinganna á hina ýmsu nemendahópa.Nemendur munu samkvæmt frumvarpinu ekki geta tekið lán með námi sem er skipulagt með vinnu. Stúdentafélag HR ætlar að sögn Rebekku að skoða betur hvernig frumvarpið kemur við þennan hóp, hvort það sé yfirleitt mikil eftirspurn eftir lántöku innan hans. 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Háskólinn í Reykjavík
Bókahillur á bókasafni.
 Mynd: Pixabay
Bókasafn.

Doktorsnemi segir óvissu ríkjandi

Nokkuð hefur verið rætt um áhrif styttingar hámarkslántökutíma úr átta árum í sjö á doktorsnema en talið er að um 10 -15% doktorsnema á Íslandi reiði sig á námslán. Rebekka segir að við fyrstu sýn virðist breytingarnar ekki koma niður á doktorsnemum við HR þar sem fjárframlög ríkisins til rannsóknarsjóða hafa verið hækkuð. 

„Þetta lítur vel út núna en maður á eftir að grandskoða þetta.“

Einar Pétur Heiðarsson, stjórnarmaður í  félagi doktorsnema við Háskóla Íslands. segir að talsverð óvissa sé um hver áhrifin verði, hvort doktorsnemar komi til með að geta fjármagnað námið með styrkjum í auknum mæli. 

„Þetta mun augljóslega þrengja fjármögnun fyrir doktorsnema.“

Nýtist best barnlausum sem búi heima

Einar bendir á að engin þeirra sviðsmynda sem greint er frá í frumvarpinu taki til doktorsnema og lítið sé minnst á þá í því. Doktorsnámið sé ungt á Íslandi og hugsanlega ekki komið inn í meðvitund forsvarsmanna Lánasjóðsins, háskólanna og stúdentafélaganna.Hann segir mikilvægt að skoða frumvarpið og áhrif þess ofan í kjölinn. Það sé nokkuð bratt að ætla að það verði að lögum fyrir haustið, eins og lagt er upp með. Námsstyrkurinn, hryggjarstykkið í frumvarpinu, sé jafnhár óháð fjölskylduhag og búsetu. Hann nýtist best einhleypum grunnnemum sem búi í foreldrahúsum. 

„Ef það er hinn týpíski námsmaður þá er þetta kannski gott frumvarp.“

Segir doktorinn komast fyrir innan sjö ára rammans

Að jafnaði tekur þrjú ár að ljúka grunnnámi og eitt til tvo að ljúka meistaranámi. Doktorsnám tekur að jafnaði þrjú til sex ár. Í fyrra kerfi voru takmörk fyrir því hversu mörgum ECTS-einingum námsmenn gátu fengið lán á hverju námsstigi en þær girðingar hafa nú verið felldar, námsmenn geta því skipulagt lántökuna með öðrum hætti. Jónas Friðrik Jónsson, formaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið, segir að doktorsnámið komist fyrir innan sjö ára rammans. Þetta ráðist allt af því hvernig nám sé uppbyggt og hvernig nemendur skipuleggi nám sitt. 

Greiða fjörutíu þúsund krónur á mánuði

Sá sem lýkur meistaranámi á réttum tíma og tekur fullt framfærslu- og skólagjaldalán kemur til með að greiða 40 þúsund krónur á mánuði í afborganir. Mögulegt verður að fresta greiðslum tímabundið vegna fjárhagsörðugleika og að einhverju leyti vegna húsnæðiskaupa. Einar segir að greiðslubyrði doktorsnema verði sennilega hærri en annarra þar sem þeir ljúki námi seinna og afborganirnar dreifist því á færri ár. 

„Snýst ekki bara um hagsmuni stúdenta“

Einar segir frumvarpið ekki einungis snúa að hagsmunum stúdenta heldur að hagsmunum háskólasamfélagsins í heild, sem hafi breyst mikið á síðustu tuttugu árum með fjölgun doktorsnema og auknum rannsóknum. 

„Ef þú tekur út ákveðið fjármagn þar þá hlýtur að þurfa að koma annað fjármagn í staðinn. Það eru þau spor sem hræða. Það hefur komið frá ríkinu, eins og við þekkjum, yfirlýsing um að efla eigi rannsóknarstarf háskólanna en því hefur ekki fylgt fjármagn.“

Hefur áhyggjur af áhrifum á stúdenta erlendis

Til viðbótar við þetta má nefna að stjórn Samtaka íslenskra stúdenta erlendis, SÍNE, liggur nú yfir frumvarpinu og mun á næstu dögum tjá sig um hvernig breytingarnar koma við þann hóp. Hámarkslánsupphæð verður nú 15 milljónir og ljóst er að það kemur ekki til með að duga fyrir skólagjöldum og framfærslu við dýra háskóla erlendis. Brynja Kristín Einarsdóttir, læknanemi í Debrecen í Ungverjalandi, segist efast stórlega um að frumvarpið þjóni hagsmunum þeirra sem sækja nám þar og segir að hún sé ekki ein um að hafa áhyggjur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margir Íslenskir stúdentar nema læknisfræði í Debrecen í Ungverjalandi
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Jón Atli Benediktsson.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er ekki sannfærður um að þær breytingar sem boðaðar eru á námslánakerfinu í nýju frumvarpi menntamálaráðherra, auki jafnrétti til náms. 

„Við þurfum að skoða langtímaáhrifin. Það er þetta með hvernig endurgreiðslurnar eru. Lánasjóðurinn er félagslegur jöfnunarsjóður, mikilvægur fyrir menntakerfið á Íslandi. Með því að fólk greiði til baka óháð efnahag og tekjum getur þetta orðið mjög þungt. Þeir sem fá ekki miklar tekjur eftir að hafa lokið námi lenda augljóslega í vandræðum, þurfa að byrja að greiða af láninu eftir eitt ár, nú eru þau tvö. Síðan getur þetta leitt til þess að ákveðnar greinar sem lofa góðu varðandi tekjur verða vinsælli en aðrar. Ef við erum að tala um alhliða háskóla og að háskólanám efli samfélagið þá getur þetta leitt til einsleitari hópa.“

Þessi þróun er mjög varhugaverð að hans mati. 

Gæti aukið þrýsting á kennara

Hann setur spurningamerki við styrkina og hvatann sem hann á að skapa.  

„Mögulega fá þeir sem ekki þurfa á láni að halda styrk, ef við erum að tala um lánasjóðinn sem félagslegan jöfnunarsjóð þá er hann ekki að virka þannig. Hins vegar eru kannski einhverjir sem fá lán og klára frekar. Það er líka vert að velta því fyrir sér hvort í þessu kerfi komi fram pressa á kennara að nemendur verða að klára til að geta fengið styrkinn.“ 

Sterkurinn verður greiddur út í lok annar, eftir að sýnt hefur verið fram á námsárangur. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Nemi.

Galli að veikir nemendur fái ekki styrk

Jón Atli bendir á að nemendur sem hafa þurft að hægja á námi sínu vegna veikinda eða barneigna geti ekki fengið styrk. 

„Þetta geta verið mjög góðir nemendur, svo kerfið er mögulega ekki nógu sveigjanlegt.“ 

Kerfið henti ungum, barnlausum nemum sem búi heima best. 

„Við þurfum náttúrulega að fara vandlega ofan í málið og við munum auðvitað veita umsögn um það og skoða ýmsar sviðsmyndir.“

Færri fá tækifæri til þess að stunda nám erlendis

Þá hefur hann áhyggjur af stöðu íslenskra nema við erlenda háskóla. 

„Mér finnst hættulegt að hafa þetta þak upp á fimmtán milljónir sem getur þýtt að nemendur erlendis, sem fá inni í góðum skólum erlendis, geta lent í vandræðum ef þeir fá ekki styrk. Það er mikilvægt að hafa fjölbreytni, að nemendur geti farið út.“

Segir ekki nóg að efla samkeppnissjóði

 

Jón Atli segir mikilvægt að skoða málið í stóra samhenginu. Skoða þurfi stöðu doktorsnema í samhengi við fjármögnun háskólanna almennt. 

„Það er ákveðinn hópur doktorsnema sem er ekki á styrkjum.  Nú er ríkisstjórnin komin með sína fjármálaáætlun, háskólakerfið situr svolítið eftir og við rektorar þeirra höfum mótmælt því. Ef við erum að horfa á þetta norræna módel sem er mikið skoðað og stefnt að hér á Íslandi, varðandi lánasjóðinn, en doktorsnám á Norðurlöndum er oft styrkt sérstaklega inni í fjármögnun háskólanna í doktorsnemastöðum og það höfum við ekki hér á Íslandi, það vantar inn í okkar kerfi. Það er ekki fullnægjandi að segja að allir nemendur eigi að vera á einhverjum styrkjum frá rannsóknarsjóðum, það bara gengur ekkert upp. Það þarf að gera ýmislegt annað til að efla háskólakerfið áður en það er farið út í þetta.“

Hann segir þær auknu fjárveitingar sem samkeppnissjóðirnir hafa fengið frá ríkinu undanfarið ekki duga til. 

„Nei, það er ekki nóg. Ég lít á þetta sem einhvers konar leiðréttingu sem hefur verið hjá samkeppnissjóðunum, þeir sátu eftir en það þarf að efla rannsóknarstarfið í háskólanum. Við höfum náð góðum árangri en við erum með mjög marga nemendur sem eru ekki á styrkjum og við þurfum að efla stuðning við þá til að efla virkni. Best væri ef doktorsnámið væri þannig að nemendur fengju styrki um leið og þeir væru teknir inn í námið, það er víða þannig á Norðurlöndunum. Það er eiginlega hættulegt að vera með stóran nemendahóp sem er bara á samkeppnissjóða-styrkjum.“ 

Yfirstrikunarpennar og gleraugu ofan á skólabók.
 Mynd: Pixabay