Virginia fór í ferðina með tveimur sonum sínum, 14 og 11 ára, og vinum sínum. Hún lýsir ferðalaginu í viðtalinu sem má horfa á hér að ofan og áhyggjum hennar af sonum sínum. Þeir hafi um tíma verið hvor í sínum bílnum og hún farið á milli til að kanna líðan þeirra.
Þau áttu von á mikilli ævintýraferð sem breyttist í mikla hrakninga. „Ég tel að þeir hafi ekki getu til að standa í svona en þetta land er svo stórkostlegt og það eru svo margir staðir til að heimsækja. Ég skil ekki hvernig fyrirtæki sem þetta getur starfað í ferðamennsku á Íslandi,“ sagði Virginia í viðtali við Ölmu Ómarsdóttur í fjöldahjálparmiðstöðinni í Gullfosskaffi snemma í morgun.
Börnum hennar var orðið mjög kalt og hélt hún þeim yngri fast að sér á meðan þau biðu eftir hjálp. Hún segir að yngra barnið hafi beðið úti eftir hjálp í um sex tíma en það eldra í um sjö og hálfan tíma. Fjölskyldan ætlar að ferðast til fleiri landa eftir dvölina hér en hún segir að börnin vilji bara fara heim, enda líði þeim illa eftir þessa lífsreynslu.