Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ótrúlegur sigur Þórsara á Íslandsmeisturunum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ótrúlegur sigur Þórsara á Íslandsmeisturunum

27.01.2020 - 21:10
Þór Akureyri sigraði KR naumlega 102-100 í ótrúlegum leik á Akureyri í Domins-deild karla í körfubolta. Þórsarar voru 24 stigum yfir í hálfleik en undir lok leiksins færðist veruleg spenna í leikinn.

Íslandsmeistarar KR sóttu Þór heim til Akureyrar. Leikurinn átti upphaflega að fara fram 19. desember en var frestað vegna veðurs. Honum var svo aftur frestað vegna veðurs þann 13. janúar en fór svo loks fram í kvöld. Með sigri gátu Þórsarar komist úr fallsæti og í það tíunda en KR-ingar eru í 3.-6. sæti í deildinni með 18 stig líkt og Tindastóll, Njarðvík og Haukar og fjórum stigum á eftir Keflavík sem situr í öðru sæti deildarinnar.

Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti en þegar níu mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta var Þór komið 28-12 yfir og tók þjálfari KR-inga, Ingi Þór Steinþórsson, leikhlé og lét nokkur vel valin orð falla við sína menn. KR-ingar náðu svo að minnka muninn í 11 stig snemma í öðrum leikhluta en Þórsarar svöruðu því og rigndi stigunum inn hjá heimamönnum sem áttu auðvelt með að komast í gegnum vörn gestanna og staðan í leikhléi 66-42.

KR-ingar fóru að saxa á forskot Þórsara jafnt og þétt þegar leið á þriðja leikhluta og staðan í upphafi fjórða leikhluta 88-75. Þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum voru Þórsarar komnir í ágætis stöðu 93-78. En þeir misstu það niður og eftir nokkur dýrkeypt mistök var staðan orðin 99-96 þegar þrjár mínútur voru eftir. KR-ingar minnkuðu svo muninn enn fremur og þegar nokkrar sekúndur voru eftir höfðu KR-ingar voru KR-ingar með boltann í stöðunni 102-100. Þeim tókst þó ekki að koma niður körfu i og niðurstaðan ótrúlegur tveggja stiga sigur heimamanna. 

Stigahæstur í liði Þórsara var Hansel Giovanny með 31 stig og þar á eftir kom Jamal Marcel Palmer með 21 stig. Í liði gestanna var það Brynjar Þór Björnsson sem skoraði flest stig eða 26 og Matthías Orri Sigurðsson þar á eftir með 18 stig. Flest fráköst í leiknum átti Michael Craion í liði gestanna eða 13 talsins.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Fyrsti sigur Þórs Akureyri í höfn