Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ótrúlegt ævistarf saman komið á einum stað

Mynd: Hafnarborg / RÚV

Ótrúlegt ævistarf saman komið á einum stað

08.12.2019 - 15:14

Höfundar

Guðjón Samúelsson er langþekktasti arkitektinn í Íslandssögunni. Það er í sjálfu sér erfitt að fara út að ganga án þess að rekast á hús eftir hann. Í Hafnarborg, sem er eitt af hans húsum, stendur einmitt yfir sýning á verkum hans þessa dagana.

Í ár er rétt öld liðin frá því að Guðjón Samúlesson lauk háskólaprófi í byggingarlist og var í framhaldinu skipaður húsameistari ríkisins árið 1920. Af því tilefni efnir Hafnarborg til yfirlitssýningar þar sem sjá má teikningar, ljósmyndir og líkön af byggingum Guðjóns, ásamt ýmsum tillögum sem ekki urðu að veruleika. Ágústa Kristófersdóttir er forstöðumaður Hafnarborgar og sýningarstjóri. „Pétur Ármannsson arkitekt hefur í mörg ár unnið að rannsóknum á ferli Guðjóns. Það er bók í undirbúningi sem kemur út á næsta ári. Og í tengslum við þá bók ákváðum við að setja upp sýningu hér í Hafnarborg, hún á vel heima hér enda hluti hússins höfundarverk Guðjóns sjálfs. Og við fengum gott fólk með okkur í lið til að safna öllu því efni sem tengist húsum hans, bæði teikningum sem eru varðveittar í Þjóðskjalasafni, ljósmyndum, sem við fengum mest frá Þjóðminjasafninu og Byggðasafni Hafnarfjarðar, og skipulagsuppdráttum sem við fengum frá Skipulagsstofnun, kvikmyndabútum frá Kvikmyndasafninu og þar fram eftir götunum,“ segir Ágústa.

Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarborg - RÚV
Guðjón Samúelsson fyrrum húsameistari ríkisins

Mynd dregin upp af Guðjóni

„Ég held að það sem gerist er að fólk áttar sig á því hvað margir hafa snertiflöt við hús hans og byggingar nánast á hverjum einasta degi í sínu lífi. Mörg okkar hafa gengið í skóla sem hann hannaði eða legið á sjúkrahúsi sem hann hannaði og ekki síður gengið á götum sem hann ákvað hvernig áttu að liggja,“ segir Ágústa þegar hún er spurð að því hvaða mynd er hægt að draga upp af Guðjóni við svona yfirlitssýningu. „Hann hefur mjög mikil áhrif og ég held að það sé það sem kemur fólki svolítið á óvart þegar það kemur hingað og sér þetta ótrúlega ævistarf samankomið á einum stað,“ segir Ágústa sem ekki aðeins vinnur í húsi sem Guðjón hannaði heldur bjó líka í húsi eftir hann fyrstu æviárin. „Já, ég er svo heppin að hafa í frumbernsku bara búið hérna í héraðsskólanum í Reykholti, sá hluti skólans sem ég bjó í hét austur uppi, sem var ekki búið að reisa á þeim tíma en það var reist eftir teikningum Guðjóns þannig að ég fékk Guðjón með móðurmjólkinni í Reykholti sem barn. Ég myndi segja að Guðjón sé maður sem gekk mjög í takt við tímann sem hann starfaði. Hann kemur hingað heim og tekur við starfi húsameistara ríkisins 1920 og starfar til ársins 1950. Hús hans breytast. Fyrst vinnur hann út frá svona samklippistílum alls konar, eins og í húsi Natans Olsen við Austurvöll. Síðan fer hann að leita að einhverjum íslenskum tóni í sínum byggingum og leitar þá í þjóðernisrómantíkina eins og hann þekkti hana frá Danmörku og kannski Finnlandi, síðan yfirgefur hann þá hugmyndafræði og sækir sér innblástur annað, til dæmis í módernismann og ekki síður art deco. Þannig að hann er stöðugt að vinna í takt við þann tíma sem hann vinnur á,“ segir Ágústa. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarborg - RÚV
Landakotskirkja í Reykjavík

Kulnaði mögulega eftir mikið álag

Það var mikil ábyrgð lögð á herðar Guðjóns sem húsameistara ríkisins á þeim tíma er Ísland brýst til sjálfstæðis og hefur eflaust haft mikil áhrif á hann. „Hann skapaði okkar umhverfi og var prímusmótor í því. Þegar hann fær þetta embætti er einn starfsmaður sem fylgir með, þetta embætti er nýstofnað, og þeir koma sér fyrir á heimili Guðjóns við Skólavörðustíg. Skrifstofan var þar í mörg ár og þeir voru bara tveir, og teiknuðu Þjóðleikhúsið, Sundhöllina, Landakotskirkju og guð má vita hvað. Og samtals eru þetta um 800 verkefni sem hann kom nálægt sinni starfsævi. 1930 er hann búinn að teikna fyrsta skaflinn af þessum verkefnum og þá fór hann í langt veikindafrí. Hann fór til Danmerkur og safnaði kröftum og mér er sagt að hann hafi aldrei náð almennilega kröftum eftir það. Hann er einn af þessum mönnum sem fór í burn-out eins og við köllum það í dag,“ segir Ágústa og bendir á að Guðjón hafi einnig skipulagt heilu bæjarfélögin. „Já, þetta ævistarf var alveg ótrúlegt. Hann var formaður skipulagsnefndar og teiknaði eigin hendi marga bæi. Hann gerði skipulagsdráttinn að Reykjavík frá 1927, hann skipulagði Hafnarfjörð, sem við erum stödd í. Og hann gerði skipulagsuppdrætti að bæjum á Vestfjörðum, til dæmis Bolungarvík eins og við sjáum hér en það var aldrei byggt neitt eftir þessum uppdrætti. En hins vegar sjáum við uppdrætti af Akureyri og Ísafirði að hluti af hans hugmyndum varð að veruleika. Þannig að hann hefur áhrif á líf þeirra sem búa á þessum stöðum.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarborg - RÚV
Akureyrarkirkja er eitt af glæsilegri verkum Guðjóns Samúelssonar.

Enn ein arfleifð frá Guðjóni er steiningin. „Já, það má segja að þetta sé hans uppfinning. Hann og Kornelíus Sigmundsson múrarameistari veltu því mikið fyrir sér hvernig væri hægt að klæða hús á Íslandi. Og þetta er þeirra uppfinning í raun veru, fundin upp út frá öðrum aðferðum við klæðningar. Steinsteypan var hans efni alla tíð og þeir voru að leita að efni, aðferð sem gæti gert byggingarnar glæsilegri. Þeir fara af stað með að skoða hvernig hægt sé að nota grjótmulning dreginn eða kastað í múrhúð til þess að klæða húsin og koma þá upp með þær aðferðir sem við sjáum hér a veggnum við hliðina. Þetta eru ekki íslenskir steinar hér, heldur er þetta allt innflutt. Í dag er algjörlega bannað að nota íslenskt grjót með þessum hætti en svo sjáum við hérna þessar íslensku steintegundir sem náttúrugripasafnið var svo elskulegt að lána okkur,“ segir Ágústa og aðspurð að því hvernig arkitekt Guðjón væri í dag segir hún að hann væri án efa nútímalegur. „Algjörlega. Hann væri kannski í íhaldssamari taktinum en eftir því sem ég kynnist hans hugmyndum betur og sé hvernig hann gekk í takt við tímann og sótti sér innblástur og hleypti yngri mönnum að, þá er ekki efi í mínum huga að hann væri nútímalegur,“ segir Ágústa Kristófersdóttir sýningarstjóri í Hafnarborg.