Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ótrúlegt að metanbílar séu ekki vinsælli

01.12.2019 - 20:10
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Það er ótrúlegt að ekki aki fleiri um á metanbílum en raun ber vitni, segir framkvæmdastjóri Orkuseturs. Ríflega sex þúsund fleiri rafbílar en metanbílar eru hér á landi. Metanbílar séu ódýrari en rafbílar og eldsneytið á þá einnig ódýrara en rafmagn. Stærstur hluti þess metangass sem er framleiddur fer til ónýtis.

Miklu meiru af því metangasi sem hér er framleitt er eytt heldur en nýtt. Metangas, sem dugir til að knýja fjögur til fimm þúsund litla fólksbíla í heilt ár, fer til spillis hjá Sorpu vegna lítillar eftirspurnar.

„Það væri mjög æskilegt að við gætum nýtt metanið betur. En það er betra að brenna það umfram metan sem um er að ræða heldur en að það sleppi út í andrúmsloftið,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hann bendir á að von sé á tillögum starfshóps um orkuskipti í samgöngum.

Á Akureyri og í Reykjavík eru einu afgreiðslustaðir metans. Kemur fæð stöðvanna í veg fyrir fjölgun metanbíla?

„Nei, alls ekki. Þó að þetta þýði kannski að 25% landsmanna eigi erfitt að nýta sér metanlausnina þá þýðir það ekki að hin 75% eigi að hunsa hana algjörlega. Því þetta eru nógu góðir innviðir til þess að anna miklu, miklu fleiri bílum án vandkvæða,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Sigurður bendir á að metanrúmmetrinn jafngildi bensínlítra og sé um hundrað krónum ódýrari. Nýjustu metanbílunum sé hægt að aka hátt í fimm hundruð kílómetra á einum tanki. Hátt í níu þúsund (8.901) bílar hér á landi ganga að hluta eða að öllu leyti fyrir rafmagni en tæplega átján hundruð fyrir metani (1.784). Hvers vegna beinist miklu meiri athygli að rafbílum en metanbílum?

„Það tengist eitthvað neytendum af því að metanbílarnir eru ótrúleg tækni. Bílarnir eru ódýrari, eldsneytið er ódýrara, þetta er framlag inn í loftslagsbaráttuna og við erum að skipta úr óhreinum erlendum orkugjafa yfir í hreinan innlendan orkugjafa. Þannig að þetta er svokölluð „win, win, win, win“-ákvörðun. Þannig að það er eiginlega ótrúlegt að hún sé ekki betur nýtt,“ segir Sigurður.