Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ótrúleg lágkúra“ að tala um árás á starfsfólk Samherja

17.11.2019 - 15:00
Silfrið.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir frumvarp félagsmálaráðherra til starfskjaralaga bjóða upp á „ríkulegt hlaðborð nýstárlega undankomuleiða fyrir brotlega atvinnurekendur." Mynd: RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gagnrýnir Þorstein Má Baldvinsson, sem vék tímabundið úr forstjórastólnum í Samherja, fyrir að tala um árás á starfsfólk fyrirtækisins í tengslum við Samherjaskjölin.

Þorsteinn Már talaði við starfsfólk í fiskvinnslu Samherja á Dalvík á fimmtudag. Þar talaði hann um tímabundið brotthvarf sitt úr forstjórastarfinu. „Ég stend upp og þið, veit að þið standið með mér,“ sagði Þorsteinn Már á fundinum. Þar talaði hann líka um „árás á starfsmenn Samherja,“ eins og fjallað var um á Vísi í gær.

Sólveg Anna sagði í Silfrinu í morgun að tal Þorsteins um árás á starfsfólk væri fráleitt. „Ekki nema það hafi einhvern veginn orðið einhver stórkostleg lýðræðisvæðing í þessu fyrirtæki, og að starfsfólkið sjálft sér þarna ásamt honum orðið einhverjir eigendur að þessum atvinnutækjum,“ sagði hún. Ef svo sé ekki séu ummæli Þorsteins „náttúrulega ótrúlega bara absúrd og að mínu mati er þetta bara ótrúleg lágkúra, að leyfa sér þetta framferði,“ segir Sólveig Anna.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV