Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ótímabært að dagsetja lok viðræðna

29.02.2012 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Morten Jung, yfirmaður Íslandsmála hjá stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins, segir of snemmt að fullyrða hvort aðildarviðræðum við Ísland verði lokið fyrir Alþingiskosningar vorið 2013. Evrópumálin voru kynnt á fundi á Akureyri í dag.

Það var Evrópustofa, sem stóð fyrir kynningarfundinum um stöðu mála innan sambandsins og gang aðildarviðræðna við Ísland, en fleiri fundir eru fyrirhugaðir víða um land á næstunni. Innanríkisráðherra og fleiri hafa undanfarið lýst þeirri skoðun að aðildarviðræðum verði hraðað og samningur lagður fyrir þjóðaratkvæði fyrir næstu alþingiskosningar.

„Við teljum of snemmt að lýsa því yfir núna að við getum lokið viðræðunum fyrir árslok eða um mitt næsta ár,“ segir Morten Jung, yfirmaður Íslandsmála hjá stækkunarskrifstofu ESB. „Viðræðurnar eru ótímasettar. Við ættum ekki að geta okkur til um hvenær þeim líkur.“

Morten segir miklu skipta að menn séu ekki að flýta sér í samningaviðræðunum og horfi frekar á gæði samningsins heldur en lokadagsetningar. Venjan sé að gefa ekki lokadagsetningar fyrr en á síðustu stigum viðræðna en viðræðurnar við Ísland séu ekki svo langt komnar. Að hans sögn ganga viðræðurnar vel en framundan séu umræður um erfið mál, svo sem landbúnað, fiskveiðar og umhverfismál. „Þetta eru erfið mál sem verða krefjandi. Viðræðurnar ganga þó út á það að finna lausnir og málamiðlanir til þess að komast að niðurstöðu.“