Óþarfi að bjóða slæmum hugsunum í kaffi og mat

Mynd: RÚV / RÚV

Óþarfi að bjóða slæmum hugsunum í kaffi og mat

07.01.2020 - 15:08

Höfundar

Morgunleikfimin í útvarpinu er fyrir löngu orðin fastur liður í lífi margra. Hún er sérlega lífsseig og er elsti útvarpsþátturinn á dagskrá Rásar 1. Í janúar 2020 víkur leikfimin hins vegar tímabundið fyrir nýjum dagskrárlið - hugleiðslu.

Morgunleikfimin hefur verið á dagskrá á Rás 1 í heil 57 ár eða síðan Valdimar Örnólfsson leiddi hlustendur í gegnum morgunæfingar og gerði það í 25 ár. Þá tók Jónína Ben við og síðan Halldóra Björnsdóttir árið 1987 en hún stýrði morgunleikfiminni til ársins 2014 og segja má að hún geri það enn því upptökum af leikfimisæfingum hennar er enn útvarpað alla virka morgna á Rás 1. Því þekkja flestir hlustendur rásarinnar rödd hennar og fjölbreyttar æfingar sem hún fer yfir með þeim sem á hlýða.

Mynd: RÚV / RÚV
Upptaka á leikfimisæfingum Valdimars frá árinu 1962

Skilgreinir lífið fyrir og eftir hugleiðslu

Nú í janúar verður gert hlé á leikfimi Halldóru í fyrsta sinn í rúma þrjá áratugi í tilefni þess að janúar 2020 er andlegur mánuður á Rás 1. Því er bryddað upp á þeirri nýjung í einn mánuð að bjóða upp á hugleiðslu. Thelma Björk Jónsdóttir jógakennari leiðir hlustendur í gegnum hana. Menningarritari RÚV.is ræddi við Thelmu Björk um hugleiðsluna og mikilvægi hennar en hún kynnir á næstu vikum fjórar hugleiðslur og hyggst leyfa hverri hugleiðslu að lifa í eina viku í senn. Fyrsta hugleiðslan, og sú sem hlýða má á í þessari viku, er í formi möntrusöngs þar sem sömu orðin eru endurtekin aftur og aftur. Í næstu viku taka svo við öndunaræfingar en þá leiðir Thelma Björk slökunaröndun. Næstu tvær vikur býður hún svo upp á annars konar hugleiðslu. „Hugleiðsla er svo margt misjafnt og það er ekki beint hægt að segja að hún sé nákvæmlega svona eða hinsegin. Það er hægt að hugleiða á svo fjölbreyttan hátt og mig langar að kynna mismunandi útfærslu á henni,“ segir hún.

Margir sakna eflaust morgunleikfiminnar sem fylgt hefur mörgum jafnvel meirihluta ævinnar en Thelma Björk bendir á að hugleiðslan og leikfimin, sem snýr aftur í janúar, séu í raun eins og systur. Þær séu náskyldar og byggja hvor aðra upp. Það eru ýmsar ástæður fyrir fólk að byrjar að hugleiða en sjálf skilgreinir hún líf sitt í raun fyrir og eftir hugleiðslu. „Ég næ betri fókus,“ segir hún. „Ég er sjálf kennari og kenni börnum alla daga og fyrir mér er þetta eins og að eiga verkfærakistu sem ég gríp í til að róa mig niður. Ef það er mikið álag þá get ég sest niður með sjálfri mér og tekið öndunaræfingu eða farið með þulu í huganum eða setið með sjálfri mér í þögn. Þetta gefur mér úthald til að takast á við verkefni dagsins og venjulegt líf.“

Morgunleikfimin er andleg líka

Thelma Björk segir að hugleiðsla snúist að miklu leyti um að ná tengingu við sjálfan sig en þessa tengingu á fólk oft til með að missa í dagsins amstri eða jafnvel þróa neikvætt samband við sjálfið. „Þetta snýst um að koma heim til sjálfs sín því þegar við náum því þá eigum við auðveldara með að tengjast sjálfum okkur, samstarfsfólkinu og fólkinu í kringum okkur,“ segir hún og brosir. „Fyrir mér snýst hugleiðslan að miklu leyti um að hlaða mig og vökva. Að leggja inn á andlega bankann þegar það vantar innistæðu.“

Margir hlustendur sakna væntanlega morgunleikfiminnar og sjálf segist hún vera mikill aðdáandi hennar en bendir á að hugleiðslan og leikfimin útiloki ekki hvor aðra heldur geti heldur byggt hvor aðra upp og séu í raun eins og samheldnar systur sem eru náskyldar og byggja hvor aðra upp. „Ég lít í raun á hugleiðsluna sem andlega útgáfu af morgunleikfiminni, mér finnst jafn mikilvægt að stunda andlega leikfimi og líkamlega,“ segir hún og bendir á að það geri sér ekki endilega allir grein fyrir því hvað morgunleikfimin er andleg líka. 

Heilinn hannaður til að vera á milljón

Sem fyrr segir verður hugleiðslan á dagskrá út janúar og svo verða hugleiðsluæfingarnar aðgengilegar í spilaranum í einhvern tíma fyrir þá sem vilja halda áfram að spreyta sig á þeim. „Ég lít svo á að ég sé búin að kynna fyrir hlustendum þá verkfærakistu sem ég á, elska og nota sjálf rosalega mikið. Vonandi kveikir þetta í fólki,“ segir Thelma Björk. „Sjálf finn ég rosalega mikinn mun á mér en það þarf að gefa öllu svona nýju bæði tíma og tækifæri. Þegar fólk er að byrja að hugleiða í fyrsta skipti er það ekki auðvelt fyrir alla enda er heilinn okkar hannaður til að vera á milljón allan tímann með fullt af hugsunum.“

Snýst um að temja apaheilann

Hugsanir hverrar manneskju geta farið út og suður og margar þeirra sem sækja að eru neikvæðar og gera ekkert gagn. Thelma segir að hugleiðslan sé gott verkfæri til að sigta góðar hugsanir frá þeim slæmu og óhollu. „Þetta snýst líka um að þú þarft ekki að trúa öllu sem þarna kemur upp, þú ert ekki hugsanir þínar,“ segir Thelma Björk ákveðin.

„Við erum að reyna að temja þennan apaheila. Mér finnst gott að sjá hugsanir eins og ský á himnum. Sumar henta okkur vel og eru uppbyggjandi og fallegar en aðrar eru það ekki og þá er fínt að leyfa þeim að fljóta framhjá en ekki taka þær, bjóða þeim í kaffi og mat og leyfa þeim að gista í marga mánuði,“ segir hún kímin. Með hugleiðslu sé auðveldara að sigta óveðursskýin frá þeim saklausu og tæru. „Við getum ákveðið: Ég ætla ekki að dvelja í þessari hugsun heldur frekar í þeirri sem ég var að hugsa áðan.“

Morgunhugleiðslan er á dagskrá á Rás 1 klukkan 9:45 virka daga. Hlýða má á hugleiðslu Thelmu í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Innlent

Morgunleikfimi áfram á Rás 1