Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óþægilegt að senda skólafélagana í sóttkví

12.03.2020 - 22:12
Mynd: RÚV / RÚV
Emma Eyþórsdóttir, 17 ára nemandi í MH sem greindist með COVID um helgina segir það ekki hafa komið á óvart. Það sé þó óþægilegt að vita af því að margir hafi þurft að fara í sóttkví í kjölfarið.

Emma er með innanlandssmit á svokölluðu þriðja stigi. Hún smitaðist sem sagt af vini sínum, sem smitaðist af foreldrum sínum, sem voru að koma frá útlöndum.

Mikið veik í einn dag

Hún var einkennalaus í fjóra daga en fékk flensueinkenni á sunnudag. Það kom henni ekki á óvart að fá COVID-greiningu. „Ég var rosalega lystarlaus. Síðan fékk ég hausverk og svakalega vanlíðan. Á mánudagsmorguninn vaknaði ég með dúndrandi hausverk og hita og kuldaköst og var þá komin með beinverki og hita“ segir Emma. 

Varstu mikið veik? „Já, í þennan eina dag,“ segir hún glettin. Emma hefur hins vegar náð snöggum bata. Núna er hún kvefuð og með þyngsli fyrir brjósti. „Núna er ég bara mjög fín,“ segir Emma.

Hélt sínu striki enda einkennalaus

Um fimmtíu samnemendur hennar fóru í sóttkví eftir að hún greindist. „Ég er búin að vera að fá fullt af símtölum frá rakningarteyminu og það er komið fullt af fólki í sóttkví út af þessu. Það er mjög óþægilegt að það sé einhvern veginn að það sé „mér að þakka“. En af því ég vissi ekki neitt þá hélt ég bara áfram að gera það sem ég var vön að gera,“ segir hún.

Hún veit ekki til þess að hún hafi smitað neinn og enginn sé reiður yfir því að þurfa að vera í sóttkví. „Ég var rosalega hrædd um það eins og með MH. Það voru allir í panikki í skólanum.“ Emma ákvað að segja samnemendum sínum að hún væri sú smitaða og það róaði þau. „Og ég sagði þeim að þeir sem hefðu ekki verið með mér í tímum eða í nánum samskiptum við mig þyrftu ekki að hafa áhyggjur af þessu. Krakkarnir voru þakklátir fyrir það að vita það að þetta væri ég. Ég held ég hafi róað marga með því,“ segir hún.

Emma er í sóttkví með móður sinni og kærasta, sem eru bæði byrjuð að finna fyrir einkennum og á leiðinni í sýnatöku. „Við erum bara að horfa á þætti og myndir og spjalla og allskonar. Það er mjög nýtt að gera ekkert og mega ekki gera neitt,“ segir Emma.