Öskudagurinn veitti gleði inn í samfélagið

26.02.2020 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Jón Hjaltason sagnfræðingur, sem er einna fróðastur um sögu Akureyrar, kom í viðtal á Morgunvaktinni á Rás1 og sagði frá sögu öskudagsins á Akureyri.

Fannst lífið á Akureyri dauft

Jón segir að öskudagurinn eigi uppruna sinn í Þýskalandi og Danir hafi fylgt fordæmi Þjóðverja og því tókum við Íslendingar siðinn einnig upp. Á Akureyri bjó danskur veitingamaður, Jensen, sem fannst lífið á Akureyri heldur dauflegt. Hann tók því til við að fræða Akureyringa um að það mætti hafa meira gaman af lífinu og fannst öskudagurinn tilvalinn til þess. Jensen rak hótel og þar hélt hann öskudagsveislu til að gleðja börnin.

„Það var ekki bara draumurinn um að verða Danir sem vakti upp öskudaginn á Akureyri heldur fyrst og fremst það að veita örlítið meiri gleði inn í samfélagið.“

Jón telur að öskudagurinn hafi komið til Akureyrar um 1870 og að fyrsta vitnisburðinn um þennan fögnuð sé að finna í dagbók Sveins Þórarinssonar, föður Jóns og Ármanns Sveinssona, Nonna og Manna. Í dagbókinni segir hann frá því þegar Sigga dóttir hans bað um að fá að fara á ball hjá Jensen á öskudaginn.

Mynd með færslu
 Mynd: Héraðsskjalasafnið á Akureyr
Tunnukóngur að slá hrafninn úr tunnunni

Slá köttinn eða hrafninn

Siðirnir sem tíðkast hafa á öskudaginn, að slá köttinn úr tunnunni og hengja öskupoka á fólk, hafa þróast með tímanum. Jón segir líklegt að Jensen hafi byrjað að slá köttinn út tunnunni á Akureyri og það hafi verið gert snemma á nítjándu öld. Erlendis var hefðin í raun refsing því kötturinn þótti „óhrein skepna“ og var hann í einhverjum tilfellum sleginn lifandi. Jón segir að á Íslandi hafi kötturinn alltaf verið dauður í tunnunni og miklu oftar voru notaðir hrafnar í staðinn.

Hann segir að hefðin eigi sér uppruna í evrópskri þjóðtrú og að hvorki Íslendingar né Akureyringar beri ábyrgð á þessu vonda orðspori kattarins. Hrafnarnir tóku fljótt við af kettinum í tunnunni, síðar var sett í hana ígildi kattar og í dag er gjarnan notað sælgæti. Jón segir að öskupokahefðin hafi dáið út að mestu en Jensen kenndi börnum á Akureyri að sauma og hengja pokana á fólk og því hafi það tíðkast á Akureyri í kringum 1900.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krakkar á öskudeginum á Akureyri árið 1967

Sífellt fleiri tyllidagar

Hátíðahöld á hrekkjavökunni hafa færst í vöxt á Íslandi á síðustu árum. Jón segir það sé ólíkur viðburður. Hann segir að Íslendingar hafi tilhneigingu til fjölga fremur en fækka hátíðisdögum, til dæmis séu komnir fleiri ástardagar en konudagur og bóndadagur. „Þetta er innflutningur á fleiri tyllidögum og Jensen hefði líkað það mjög vel, því hann vildi hafa þá fleiri en færri“.

Í upphafi einn dagur

Jón segir ólíkar öskudagshefðir á landinu vera stafa af því að í upphafi hafi þetta allt verið gert á bolludaginn eða flengingardaginn. „Þá vöknuðu krakkarnir eldsnemma, ruku af stað og flengdu pabba og mömmu og reyndar nágrannana líka. Eftir hádegi var herjað á köttinn og þá urðu menn kattarkóngar og tunnukóngar og síðan var farið á ballið hjá Jensen.“ Þetta var allt gert sama daginn en síðar var farið að dreifa úr þessu.

Jón segir að áður fyrr hafi hann ekki verið bjartsýnn á að öskudagurinn myndi lifa lengi en hann sjái að í dag séu krakkarnir aftur farnir að taka mikinn þátt í deginum á Akureyri. „Í hnotskurn þá held ég að dagurinn muni lifa og hann eigi eftir að lifna mjög aftur“.

Þessi frétt var unnin af Ingu Hildi Jóhannsdóttur, nema í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

gigjah's picture
Gígja Hólmgeirsdóttir
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi