Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Óskiljanlegt hvernig ég ætti að snúa baki“

Mynd: RÚV / RÚV

„Óskiljanlegt hvernig ég ætti að snúa baki“

18.12.2019 - 09:16

Höfundar

„Ég átta mig á að fólk er í erfiðri stöðu og þarf að taka erfiðar ákvarðanir samkvæmt reglum og lögum sem sum eru ekkert mjög réttlát. Á endanum hafa þau samt alltaf þetta val sem fangabúðastjórarnir í Þýskalandi höfðu líka,“ segir Sigursteinn Másson rithöfundur um óblíðar móttökur sem flóttafólk mætir á Íslandi að hans mati. Hann sendir frá sér bók sem inniheldur frásögn Husseins, afgangsk flóttamanns, um hörmungar og ofsóknir og baráttuna við kerfið á Íslandi.

Sigursteinn Másson rithöfundur sendi nýverið frá sér baráttu- og hörmungarsögu Hussains vinar síns sem býr um þessar mundir heima hjá honum. Hussain er afganskur flóttamaður sem á afar viðburðarríka, og á tíðum harmþrungna, ævi að baki sem Sigursteinn gerir skil í bókinni. Ferðalok er líklega fyrsta bókin sem gefin er út fyrir íslenskan markað sem kemur fyrst út sem hljóðbók. Bókin er komin út á Storytel en óvíst er hvort hún kemur einnig út á prenti.

Hussain elst upp á flótta með foreldrum sínum. Fjölskyldan tilheyrir þjóðflokki Hasara sem er undirokaður kúgaður minnihlutahópur í Afganistan, ofsóttur og kúgaður af Talibönum. „Þeir eru sérstakt skotmark því konur njóta til dæmis frekari réttinda á meðal Hasara en Talibanar vilja sjá. Þetta er frekar framsækinn þjóðfélagshópur innan Afganistan,“ segir Sigursteinn í samtali við Sigurlaugu Margrét Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1.

Verður þræll glæpagengis í Kios

Fjölskyldan flýr í afganskt sveitaþorp í öðru héraði þar sem faðirinn gerist lögreglumaður. Lífið verður jafn hefðbundið og það var áður. Hussain uppötvaði fótbolta og varð sérstaklega efnilegur. En hversdagsleikinn varði ekki lengi. Þegar faðirinn er myrtur af Talíbönum hafa Hussain og fjölskylda aðeins sólarhring til að komast í burtu. Móðir hans og systkini flúðu til Pakistans en hann fór sjálfur til frænku sinnar í Íran og þaðan til Evrópu í gegnum Tyrkland. Hann var flóttamaður í Grikklandi í sjö mánuði þar sem hann lenti í miklum hörmungum. „Þegar hann var 17 ára og aleinn í veröldinni var hann tvisvar fluttur á sjúkrahús, meðvitundarlaus í bæði skiptin. Þegar Hussain hélt loks að hann væri kominn í skjól tók glæpaklíka öll völd í hans lífi. Hann var misnotaður og varð fyrir hópnauðgun í flóttamannabúðum á eyjunni Kíós og síðan í Aþenu en þegar þangað er komið verður hann að þræl þessa glæpagengis,“ segir Sigursteinn alvarlegur.

Skömmin ekki hans heldur gerendanna

Partur af pyntingunum felst í því að láta það spyrjast út um búðirnar að honum hafi verið hópnauðgað. „Karlmenn sem lenda í svona eru í raun allra gagn og hafa misst alla virðingu. Eru úr leik eftir þetta,“ segir Sigursteinn. „Þetta er margfaldur terror og við fórum í gegnum þessar frásagnir í litlum skömmtum. Þetta reyndi á hann að tala um þetta en við gátum rætt það að skömmin væri ekki hans heldur gerendanna. Þegar einhver verður fyrir svona árásum er það ekki kynlíf og ekki eitthvað sem hann þarf að skammast sín fyrir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Storytel
Ferðalok eftir Sigurstein Másson.

Það var sérstaklega erfitt fyrir Hussain að deila reynslunni af kynlífsþrælkuninni og ofbeldinu sem hann mætti í Grikklandi. „Hann gat ekki sagt mér allt en hann gat sagt mér sumt. Hann grét mjög sáran þegar hann var að lýsa þessu og sumu gat hann ekki lýst,“ segir Sigursteinn.

Reyndu að telja hann af því að fara til Íslands

Loks setja sig í samband við Hussain konur, önnur frá Bretlandi og hin frá Bandaríkjunum, sem störfuðu í flóttamannabúðunum. Þær bjóðast til að hjálpa honum og spyrja hvert hann vill fara. „Hann skoðar landakort og ákveður að hann vilji fara til Íslands. Hann sá þarna eyju sem var eins langt frá Grikklandi og hægt var og þangað vildi hann komast,“ segir hann. Önnur kvennanna reyndi að telja hann ofan af því og sagði honum að það væri ekki gott að vera flóttamaður hér á landi, hann myndi líka skera sig mikið úr en hann lét ekki segjast. „Hann er mjög þrjóskur. Hans staðfesta er það sem hefur haldið honum á lífi og hér endaði hann.“ 

Þegar Sigursteinn kynnist Hussain er hann fluttur til Íslands en búinn að fá höfnun frá Útlendingastofnun og það blasir við að þurfa að snúa aftur til Grikklands. Tveimur árum síðar fékk hann endanlega höfnun frá kærunefndinni. Sigursteinn skildi að hér væri mannslíf í húfi, manns sem honum var orðið annt um og hann lofaði vini sínum að gera allt sem hann gæti til að hjálpa honum. „Þá tók við erfitt ferli við að reyna að snúa því við því ef færi sem á horfði myndi hann ekki lifa af.“

Erfitt að horfa upp á óskiljanlega baráttu við kerfið

Hann segir með ólíkindum að Hussain hafi eftir hörmungarnar sem hann hafði mátt þola einnig mætt þeirri harðneskju og skilningsleysi hér á landi. „Það að þetta skuli hafa tekið meira en ár fyrir dreng í þessari stöðu að fá vernd, og það hér hjá okkur sem teljum okkur trú um að við séum svo skiliningsrík og opin, er ótrúlegt. Þeir sem höllustum fæti standa í veröldinni og eru búin að missa allt sitt, fjölskyldu, vini, landið sitt og allt sem þau þekkja og verið beitt ólýsanlegri grimmd,“ segir Sigursteinn. „Það að við getum ekki veitt þessum einstaklingum skjól fyrr en eftir meiriháttar baráttu og bardaga við kerfið finnst mér alveg svakalega erfitt að horfa upp á.“

„Það hafa allir val um að vera manneskjur“

Eftir heimsstyrjöldina síðari var stundum sagt að versta grimmdin hafi verið skeytingaleysi annarra, segir Sigursteinn og bendir á fólkið sem kvittar upp á að senda fólk í slíkri stöðu úr landi hafi val. „Þetta er gott fólk sem elskar börnin sín og er gott við fólkið sitt og ég átta mig á að þau eru í erfiðri stöðu og þurfa að taka erfiðar ákvarðanir samkvæmt reglum og lögum sem sum eru ekkert mjög réttlát. En á endanum hafa þau samt alltaf þetta val sem fangabúðastjórarnir í Þýskalandi höfðu líka. Þau hafa það val að vera manneskjur.“

Þegar kærunefndin hafnar Hussain um alþjóðlega vernd missir hann húsnæðið sem Útlendingastofnun hafði útvegað honum í Breiðholtinu. „Ekkert blasir við nema þessi flutningur en hann var búinn að lýsa því yfir að hann myndi frekar svipta sig lífi en að fara aftur til Grikklands. Mikið tráma fylgir þeim hörmungum sem hann lenti í þar.“

Hefði aldrei getað snúið baki

Þeir sem aldrei hafa kynnst fólki á flótta af eigin raun geta talið sér trú um að við séum öðruvísi og af öðru sauðahúsi en þau og þannig réttlætt það að það sé ekki okkar að bjarga þeim, að sögn Sigursteins. „Við erum ekki frábrugðin, þetta er allt saman fólk. En þetta er varnarmekanismi sem fólk grípur til til að forðast þennan tilfinningarússíbana sem fylgir því að kynnast örlögum og taka inn á sig örlög annarra.“ Eftir að hafa kynnst flóttamönnunum segist hann hins vegar alls ekki skilja hvernig hann ætti að geta gert annað en að hjálpa þeim. „Fyrir mér er það algjörlega óskiljanlegt hvernig ég ætti að geta snúið baki.“

Hussain hefur verið duglegur að læra íslensku og stendur sig vel, að sögn Sigursteins, þrátt fyrir að vera ekki með formlega menntun að baki frá Afganistan. „Hann tekur þetta föstum tökum sem er magnað að sjá. Hann er núna kominn í það að hjálpa öðrum strákum sem líka eru flóttamenn og er hvetjandi við þá að læra íslensku. Á innan við ári hefur hann lært að lesa sér til gagns og tjáir sig og skilur það sem mestu máli skiptir.“

„Get ekki lýst því hvað ég er stoltur“

Nú upplifir Hussain í fyrsta sinn öryggi, segir Sigursteinn, en þeir eru nú að huga að fjölþjóðlegu jólahaldi á heimilinu. Hann getur loksins sofið óhræddur en það mun þó taka hann tíma að vinna úr reynslu sinni og hann jafnar sig sennilega aldrei á sumu. „Ég þreytist ekki á því að lýsa því hvað ég er stoltur af honum. Hann er ótrúlega öflugur að standa enn uppréttur og þessi drengur á eftir að spjara sig og gera sér og öðrum mikið gagn í þessu samfélagi,“ segir Sigursteinn að lokum.

Rætt var við Sigurstein Másson um bók hans Ferðalok í Segðu mér á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í heild í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Mamma stóð við þá ákvörðun að borða aldrei aftur“

Bókmenntir

Nauðsynlegt að líta á gamansömu hliðarnar