Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er þjálfari ársins 2019

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Óskar Hrafn Þorvaldsson er þjálfari ársins 2019

28.12.2019 - 20:46
Óskar Hrafn Þorvaldsson var valinn þjálfari ársins af íþróttafréttamönnum. Þetta var tilkynnt á hófi Íþróttamanns ársins rétt í þessu.

Óskar Hrafn er fyrrverandi þjálfari karlaliðs Gróttu í fótbolta og núverandi þjálfari Breiðabliks. Grótta kom á óvart í fyrstu deildinni í sumar og tryggði sér sæti í úrvalsdeild karla í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Þetta afrekaði liðið aðeins ári eftir að liðið komst upp úr 2. deild en því var spáð 9. sæti deildarinnar fyrir tímabilið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Óskar Hrafn Þorvaldsson er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins og þá jafnframt í fyrsta sinn sem hann vinnur verðlaunin.

Patrekur Jóhannesson, fyrrum þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta og núverandi þjálfari Skjern í Danmörku, og Alfreð Gíslason, fyrrum þjálfari handboltaliðsins Kiel í Þýskalandi, voru í efstu þremur sætunum ásamt Óskari í valinu.