Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óskaði sjálfur eftir því að vera rannsakaður

08.01.2016 - 17:48
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglufulltrúi í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem í sumar var færður til í starfi vegna orðróms eða ábendinga um að hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu, óskaði sjálfur eftir því að vera tekinn til formlegrar rannsóknar. Hann hefur leitað til Landssambands lögreglumanna.

Umræddur lögreglufulltrúi var meðal þeirra sem stýrði tálbeituaðgerð á Hótel Fróni í apríl síðastliðnum í tengslum við mál hollenskrar konu, sem fór út um þúfur.

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru það mistök lögreglumanns úr annarri lögreglusveit sem urðu þess valdandi að aðgerðin fór út um þúfur. Lögreglumaður misskildi skipun sem gefin var í gegnum talstöð og handtók íslenskan mann of snemma.

Konan fékk mjög þungan dóm í héraði eða 11 ár. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Dómurinn þótt orka tvímælis, ekki síst fyrir þær sakir að konan sýndi lögreglu samstarfsvilja og tók meðal annars þátt í umræddri tálbeituaðgerð. Íslenski maðurinn, sem var handtekinn, hlaut sömuleiðis þungan fangelsisdóm eða 5 ár.

Lögreglufulltrúinn var í sumar færður til í starfi vegna orðróms eða ábendinga um að hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu. Heimildir fréttastofu herma að maðurinn hafi sjálfur óskað eftir því við yfirmenn að hann og verk sín yrðu tekin til formlegrar rannsóknar. Ekki var orðið við því. Hann hafði áður óskað eftir slíkri rannsókn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hann leitað til Landssambands lögreglumanna vegna málsins. Snorri Magnússon, formaður landssambandsins, sagðist í samtali við fréttastofu ekki tjá sig um málefni einstakra félagsmanna.

Töluvert hefur verið fjallað um mál lögreglufulltrúans í tengslum við rannsókn ríkissaksóknara á öðrum starfsmanni fíkniefnadeildar sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald skömmu fyrir áramót en sleppt í gær. Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður hans, átti von á því að fá gögn málsins í dag en sagði í samtali við fréttastofu að hann fengi þau ekki fyrr en eftir helgi.

Annar maður sem fengið hefur dóm fyrir fíkniefnabrot situr í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn málsins. Hann hefur ekki fengið þunga dóma fyrir fíkniefnalagabrot en var þó dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að vera með kíló af hassi í bíl sínum.

Hljóðupptaka frá því í sumar, sem embætti ríkissaksóknara barst um miðjan síðasta mánuð, þykir sýna óeðlileg samskipti milli hans og lögreglumannsins. Maðurinn tók sjálfur upp þessi samskipti.