Ósáttur við losun holræsaúrgangs á Glerárdal

28.08.2019 - 20:15
Mynd: Skjáskot / RÚV
Til stendur að hefja losun holræsaúrgangs á Glerárdal ofan Akureyrar. Eigandi ferðaþjónustufyrirtækis á svæðinu er mjög ósáttur við framkvæmdirnar og íhugar að hætta starfsemi.

„Nú á að fara að senda alla holræsisbílana hingað“

Sorpurðun á Glerárdal lagðist af árið 2011 og er allt óflokkað sorp á Eyjafjarðarsvæðinu flutt í Vestur-Húnavatnssýslu til urðunar. Þangað hefur efnum úr holræsum einnig verið ekið en á því verður nú breyting. Bæjaryfirvöld hafa ákveðið að koma efnunum fyrir á Glerárdal til endurvinnslu. Fyrirtækið Extreme Icelandic Adventures býður upp á snjósleðaferðir steinsnar frá losunarstaðnum og eigandinn er afar ósáttur.  

„Hérna á svæðinu niður frá sem er nú svona mitt æfingasvæði á veturna er verið að gyrða af svæði og þar á að grafa holur. Og nú á að fara að senda alla holræsisbílana hingað upp eftir til þess að losa,“ segir Sigurður.

Segir lausnina græna

Forseti bæjarstjórnar á Akureyri segir staðinn henta vel til losunar og telur að hann muni ekki trufla útivistarunnendur á svæðinu. 

„Hinn kosturinn er að keyra þetta vestur um 150 kílómetra sem getur ekki talist umhverfisvænn og samræmist ekki okkar umhverfisstefnu þannig að við erum að finna grænar lausnir í þessu sem öðru,“ segir Halla.

Ætlar ekki að sætta sig við stöðuna

En Sigurður er ósammála og segist ekki munu sætta sig við þetta. Hann sé tilbúinn að fara í hart gegn Akureyrarbæ.

„Þetta hefur tekið það á mig að í gærkvöldi var ég jafnvel að spá í að hætta þessu bara.  Ég veit það ekki. Ég kannski fer eitthvað kvöldið hérna niðureftir og dreg upp alla staurana. Kannski verður kallað á lögguna útaf því, ég veit það ekki.“

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi