Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ósátt við viðtal ríkislögreglustjóra

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Kastljós
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist treysta því að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri vinni af heilindum í sínu starfi. Þá eigi eftir að koma í ljós hversu lengi hann sinni embættinu áfram. Von sé á skipulagsbreytingum innan lögreglunnar.

Dómsmálaráðherra ræddi við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í Kastljósi í kvöld. Þar var meðal annars farið yfir málefni lögreglunnar, svokallaðan gráan lista og Landsrétt. Þá kom fram að ráðherra vilji auka fjármagn til fangelsismála auk þess sem hún boðar breytingar hvað varðar málefni hælisleitenda og flóttafólks. Hér má horfa á Kastljós kvöldsins.

Ósátt með umræðu í fjölmiðlum

Dómsmálaráðherra sagði það vera óásættanlegt hvernig staðan innan lögreglunnar hafi verið rekin í fjölmiðlum. Hún hafi meðal annars verið ósátt með viðtal ríkislögreglustjóra við Morgunblaðið í september og hvernig hann tjáði sig um málefni lögreglunnar þar og hafi sagt honum það.

Viðtalið vakti nokkra athygli. Þar talaði hann meðal annars um að markvisst væri reynt að hrekja hann úr embætti og ýjaði að spillingu innan lögreglunnar. 

Til skoðunar að sameina lögregluembætti

Aðspurð um hver staðan á stöðu ríkislögreglustjóra sé, sagðist dómsmálaráðherra ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna. Hún bæri traust til lögreglunnar og lögreglustjóraembættisins og treysti því að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri vinni af heilindum í sínu starfi. 

Þá eigi eftir að koma í ljós hversu lengi hann sinni embættinu áfram. Hún vinni nú að skipulagsbreytingum sem hún stefni á að afgreiða á næstunni. Til að mynda sé til skoðunar að sameina ákveðin embætti innan lögreglunnar. 

Fyrst og fremst sé það hennar hlutverk að tryggja að lögregla starfi eðlilega áfram og tryggi öryggi landsmanna þrátt fyrir ósætti og þannig sé það. Staða lögreglunnar sé góð, þar sé mikið af góðu fólki sem sinni mikilvægum störfum.

Óskaði eftir skýringum vegna nýs launasamkomulags

Allir yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjónar ríkislögreglustjóra hafa samþykkt nýtt launasamkomulag sem færir þeim aukin lífeyrisréttindi. Dómsmálaráðherra segir að ákvörðunin heyri ekki beint undir hennar embætti. Hún hafi þó óskað eftir útskýringum á ákvörðuninni frá ríkislögreglustjóra, sem hún bíður nú eftir að fá. 

Hafi ekki miklar afleiðingar að lenda á gráa listanum

Ísland gæti lent á svokölluðum gráum lista yfir þjóðir sem ekki hafa gripið til fullnægjandi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Bandaríkin og Bretland vilja Ísland á listann til að skapa fordæmi fyrir því að hart sé tekið á þessum málaflokki.

Áslaug Arna segir að það muni skýrast á morgun hvort Ísland lendi á listanum. Ekki séu málefnalegar ástæður eða rök fyrir því að Ísland verði sett á listann. Hins vegar telji hún að afleiðingarnar af því að landið lendi á listanum ekki miklar.

Fréttin hefur verið uppfærð.