Sigríður Benediktsdóttir hagfræðikennari við Yale háskóla í Bandaríkjunum flutti fyrirlestur um þjóðhagsvarúð og hagstjórn í litlu opnu hagkerfi á fundi Hagsmunafélags kvenna í hagfræði og Félags viðskipta- og hagfræðinga á föstudag. Hún varaði stórlega við því að taka húsnæðisliðinn út úr lánskjaravísitölunni því í því fælist áhætta fyrir heimilin. Skiptar skoðanir voru um þetta meðal þeirra hagfræðinga sem tóku þátt í pallborðsumræðunum á eftir.
„Það sem að ég hef áhyggjur af ef að verið er að taka þetta út úr til dæmis eins og vísitölunni, sem notuð er til verðtryggingar, að þá erum við að horfa á vísitölu sem sveiflast meira heldur en sá mælikvarði, sem við notum núna. Þannig að ég get ekki séð að það sé endilega neytendum í hag. Þannig að við verðum að hugsa aðeins betur af hverju erum við að gera þetta,“ segir Katrín Ólafsdóttir lektor í hagfræði við HR.
Neysluvísitalan, sem notuð í verðtryggingu og verðbólgumarkmið er alþjóðlegt fyrirbæri og því erfitt að hrófla við henni, segir hún.