Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ósammála um hvort húsnæðisliðurinn skuli burt

05.05.2019 - 19:00
Mynd: RÚV / RÚV
Breyta þarf uppbyggingu vísitölunnar, segir hagfræðiprófessor, og taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni sem Seðlabankinn notar í verðbólgumarkmið. Lektor í hagfræði segir ekki endilega neytendum í hag taka hann út úr vísitölunni sem notuð er til verðtryggingar.

Sigríður Benediktsdóttir hagfræðikennari við Yale háskóla í Bandaríkjunum flutti fyrirlestur um þjóðhagsvarúð og hagstjórn í litlu opnu hagkerfi á fundi Hagsmunafélags kvenna í hagfræði og Félags viðskipta- og hagfræðinga á föstudag. Hún varaði stórlega við því að taka húsnæðisliðinn út úr lánskjaravísitölunni því í því fælist áhætta fyrir heimilin. Skiptar skoðanir voru um þetta meðal þeirra hagfræðinga sem tóku þátt í pallborðsumræðunum á eftir. 

„Það sem að ég hef áhyggjur af ef að verið er að taka þetta út úr til dæmis eins og vísitölunni, sem notuð er til verðtryggingar, að þá erum við að horfa á vísitölu sem sveiflast meira heldur en sá mælikvarði, sem við notum núna. Þannig að ég get ekki séð að það sé endilega neytendum í hag. Þannig að við verðum að hugsa aðeins betur af hverju erum við að gera þetta,“ segir Katrín Ólafsdóttir lektor í hagfræði við HR.

Neysluvísitalan, sem notuð í verðtryggingu og verðbólgumarkmið er alþjóðlegt fyrirbæri og því erfitt að hrófla við henni, segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Katrín Ólafsdóttir

Starfshópur sem endurmat peningastefnu Íslands í fyrra lagði meðal annars til að húsnæðisliðurinn yrði tekinn út úr þeirri vísitölu sem Seðlabanki Íslands notar til þess meta verðbólgumarkmið sín. 

„Húsnæðisverð er sko eignaverð og yfirleitt eru húsnæðislán fjármögnuð með mjög löngum vöxtum,“ segir Ásgeir Jónsson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. 

Því sé það erfitt fyrir Seðlabankann að hafa stjórn á fasteignamarkaðnum með sjö daga vöxtum. Stýrivextir bankans eða meginvextir eru vextir á innlánum sem bundin eru í sjö daga.  Ásgeir var í hópnum sem endurmat peningastefnuna. Hann segir að þá valdi aðferðin, sem notuð er hér við að mæla fasteignaliðinn í vísitölunni, miklum sveiflum. Aðrar aðferðir eru notaðar í Svíþjóð og Kanada. 

„Það er í rauninni þá bara heppilegt að líta á fasteignamarkaðinn sem hluta af fjármálastöðugleika og við séum þá að beita þeim tækjum á þá. Ég held það að það þurfi að breyta því hvernig vísitalan er byggð upp í dag. Ég held að við, eins og staðan er núna, ég held að, það að 25% í vísitölunni ráðist í rauninni af þriggja mánaða hlaupandi fasteignaverði það skapi svona ákveðinn óstöðugleika.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ásgeir Jónsson