Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ósammála um hvort Emil megi spila gegn KR

Emil Atlason er genginn í raðir Vals. - Mynd:  / Valur

Ósammála um hvort Emil megi spila gegn KR

13.08.2015 - 19:25
Svo virðist sem Valsmenn og KR-ingar leggi ekki sama skilning í lánssamning knattspyrnumannsins Emils Atlasonar milli félaganna. Valur og KR mætast í úrslitaleik bikarkeppninnar á laugardag og þjálfari Vals veltir því fyrir sér að tefla Emil fram í leiknum. KR-ingar telja þó að Emil megi ekki spila.

Framherjinn átti ekki upp á pallborðið hjá KR-ingum í sumar og 21. júlí fengu Valsmenn Emil á láni út leiktíðina frá KR-ingum. Hefð er fyrir því að samkomulag sé gert um að lið sem eru með leikmann í láni, tefli honum ekki fram gegn hans eigin liði.

En Valsmenn og KR-ingar virðast ekki alveg sammála um hvort Emil megi spila með Val í bikarúrslitunum á laugardag.

Óli Jó: Emil má spila
„Emil má náttúrulega spila leikinn, það er ekkert sem bannar það." segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals sem vill þó ekki gefa upp hvort hann hyggist tefla Emil fram í leiknum. „Ég hef ekki tekið ákvörðun um það. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig samkomulagið er en ég veit að hann má spila leikinn."

Bjarni Guðjóns: Emil spilar ekki
„Mér finnst það eðlilegt að þegar um lán er að ræða að leikmenn spili ekki á móti sínum liðum. Hann er ekki að fara að spila." segir Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR.

Framkvæmdastjóri KR: Samningurinn er skýr
Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR segir samninginn skýran á milli félaganna. „Emil er leikmaður KR, hann er í láni hjá Val. Þetta voru þau ákvæði sem menn settu inn í og auðvitað gengu stjórnir félaganna frá þessu en ekki þjálfararnir. Það er allt skriflegt. Það eru aldrei samningar öðruvísi en þeir séu skriflegir því annars geta menn farið með þá út og suður." segir Jónas.

Fréttina með viðtölum við Ólaf, Bjarna og Jónas má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

„KR-ingar geta leyft sér það en við ekki."