Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Öryggisgæslan efld eftir slagsmál í Höllinni

Mynd:  / 

Öryggisgæslan efld eftir slagsmál í Höllinni

15.02.2019 - 11:01
Slagsmál brutust út milli stuðningsmanna Stjörnunnar og ÍR þegar liðin mættust í undanúrslitum Geysisbikars karla í körfubolta í Laugardalshöll í gærkvöld. Stjarnan vann leikinn og mætir Njarðvík í bikarúrslitum klukkan 16:30 á morgun í beinni útsendingu RÚV. Formaður Körfuknattleikssambands Íslands segir að öryggisgæslan verði efld í kringum úrslitaleikina á morgun.

„Við munum efla öryggisgæsluna í úrslitaleikjunum á morgun, það er alveg ljóst. Annars minni ég bara á orð mín sem standa í leikskrá bikarvikunnar þar sem ég minni stuðningsfólk á að haga sér vel og að það sé líka fyrirmyndir,“ sagði Hannes S. Jónsson formaður KKÍ í samtali við RÚV í dag.

Í pistli Hannesar í leikskrá bikarvikunnar segir meðal annars: „Kæra stuðningsfólk ég óska ykkur góðrar skemmtunar og hvet ykkur að styðja við bakið að ykkar liði á jákvæðan og uppbyggilegan máta. Munum að við erum öll fyrirmyndir og eigum að haga okkur eftir því.“

Stutt myndskeið af slagsmálunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

RÚV sýnir beint frá bikarúrslitum karla og kvenna í körfubolta frá Laugardalshöll á morgun. Í kvennaflokki mætast Valur og Stjarnan klukkan 13:30 og hefst útsending RÚV klukkan 13:00. Úrslitaleikur Stjörnunnar og Njarðvíkur í karlaflokki hefst svo klukkan 16:30 en útsendingin klukkan 16:00.