Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Öryggi fólks stefnt í hættu í hálku

09.01.2012 - 08:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Reykjavíkurborg stefndi öryggi vegfarenda í hættu í gær með því að viðhafa engar hálkuvarnir. Þetta segir upplýsingafulltrúi Umferðarstofu. Aðgerðaleysið hafi valdið vonbrigðum.

Margir borgarbúar áttu í erfiðleikum með að komast leiðar sinnar í gær vegna hálku. Borgin ákvað að salta hvorki né bera á sand og gaf þær skýringar í skriflegu svari til fréttastofu að ekki væri skynsamlegt að moka út miklu af salti og sandi. Sandinn þurfi að sópa upp aftur og saltið þurfi að nota í hófi vegna umhverfisáhrifa. Hvorki hefur náðst viðtal við formann umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar né formann borgarráðs.

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, furðar sig á því að ekkert hafi verið gert til að draga úr hálkunni í gær. Hann segist ekki áður hafa heyrt þennan rökstuðning fyrir því að hálkuverja ekki. Þessar ástæður eigi ekki að vega þyngra en öryggi vegfarenda og í rauninni sé fráleitt að þær geri það. „Ég verð að segja að við höfum orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum varðandi hreinsun sérstaklega með tilliti til öryggis vegarenda, ekki síst gangandi vegfarenda. Við höfum miklar áhyggjur af því. Og þetta í gær, ég get ekki annað sagt en að það hafi verið langt frá því að vera í lagi," segir Einar. Hann bætir við að það sé skylda þeirra sem ábyrgð bera á vegum að hafa öryggi vegfarenda eins gott og mögulegt er og það hafi ekki verið í gær.