Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Örvænting og alsæla nýbakaðra mæðra

Mynd: RÚV / RÚV

Örvænting og alsæla nýbakaðra mæðra

13.02.2020 - 11:30

Höfundar

Senur leikritsins Mæður eru sumar hverjar sprenghlægilegar, aðrar harmþrungnar, en fyrst og fremst raunsannar mati Brynhildar Björnsdóttur gagnrýnanda.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar: 

Feður og samskipti barna við þá hafa löngum verið sígild efni leikbókmenntanna en mæður og reynsla þeirra kannski minna. Í því var þó gerð bragarbót á sunnudagskvöldið þar sem tvö verk voru frumsýnd á íslenskum leiksviðum, Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyndal í Borgarleikhúsinu og Mæður eftir dönsku leikskáldin Christinu Sederqvist, Juliu Lahme, Mette Marie Lei Lange og Önnu Bro í staðfærslu íslensks leikhóps sem samanstendur af mæðrum. Allar listakonurnar sem koma að verkinu eru mæður, leikstjórinn Álfrún Örnólfsdóttir, leikmynda- og búningahönnuðurinn Hildur Selma Sigbertsdóttir, tónlistar- og hljóðstjórinn Steinunn Jónsdóttir og leikkonurnar fjórar og það var skilyrði fyrir því að taka þátt í sýningunni. Hér er verið að fjalla um reynsluna af því að fæða barn og fyrstu mánuðina eftir það, þó auðvitað einskorðist móðurhlutverkið ekki við það, en sú reynsla er mjög sérstök, ekkert endilega best þó það sem hún hefur í för með sér sé oft það besta í lífi okkar og ekkert endilega verst heldur bara svo lífsumbreytandi, erfið og gefandi. 

Grátur og gubb

Leikritið Mæður fjallar um fjórar ólíkar konur sem eiga það eitt sameiginlegt að hafa fætt barn fyrir skömmu. Sýningin byrjar á þvi að leikkonurnar koma inn með fjóra kassa sem á stendur: „Fæst hvorki skipt né skilað“ og það er mjög góð lýsing á því hvernig það að eiga ungbarn tekur yfir allt lífið, hvort sem fólk vill eða er tilbúið eða ekki. Upp úr kössunum koma fjórir bangsar sem verða börnin í verkinu og það hvernig mæðrunum gengur að takast á við sitt nýja hlutverk er útgangspunktur verksins. Þær hittast í mömmuklúbbi þar sem þær eiga að deila reynslu sinni, styrk og vonum en sumar sigla gegnum þessa fyrstu mánuði á bleiku skýi á meðan aðrar eiga börn sem sofa ekki og gráta bara og gubba til skiptis. Við kynnumst  Fífu sem er algerlega rúðustrikuð og Aðalbjörg Árnadóttir leikur, Móu sem ákvað að eignast barn með indónesískum djasspíanista og lögfræðingi sem hún fann í sæðisbankanum sem Lilja Nótt Þórarinsdóttir leikur, Kristín Pétursdóttir fer með hlutverk hinnar glaðlyndu en taugaóstyrku Júlí sem brotnar saman af því hún getur ekki fengið barnið sitt til að hætta að gráta og María Heba Þorkelsdóttir leikur Andreu sem á fullkomið heimili, fullkomið líf og fullkomið barn sem sefur alla nóttina. Þessar fjórar konur fara sín á milli yfir fjölmargt sem mæður þekkja mætavel, fyrsta árið í lífi barns er ótrúlega flókin og á margan hátt erfið lífsreynsla sem spannar allan tilfinningaskalann oft á dag og dregur fram seiglu, orku og getu sem konur vita jafnvel ekki að þær búi yfir áður en þær verða mæður en svefnleysi og innilokunarkennd geta líka valdið erfiðum og sárum tilfinningum eins og þunglyndi og kvíða.

Hjörtu í litlum krumlum

Verkið er brotið upp af einræðum fleiri persóna og vangaveltum um móðurhlutverkið, til dæmis er tímasett lýsing á nótt í lífi fjölskyldu með ungbarn, fimm ára og átta ára börn mjög fyndin eins og raunar mjög margt í sýningunni. Senurnar eru raunsannar, stundum sprenghlægilegar, stundum nánast harmþrungnar og umfram allt mjög kunnuglegar þeim sem hafa farið gegnum svipaða reynslu. Að verða móðir breytir öllu lífinu og sumar konur óttast að þær muni aldrei endurheimta sjálfar sig úr klóm þessara litlu risa sem halda hjörtum þeirra í litlu krumlunum sínum. 

Sýningin er kannski ekki endilega við barna hæfi, þar er til dæmis rætt á opinskáan hátt um áhrif ungbarna á kynlíf í parasamböndum, en þó eru mæður með ungbörn boðnar sérstaklega velkomnar, sýningartíminn hentar foreldrum í fæðingarorlofi og lofað að börnin þeirra muni ekki trufla sýninguna sama hvað í þeim heyrist, að brjóstagjöf sé velkomin og nóg sé til af bleyjum. 

Þéttur hópur, góður taktur

Leikkonurnar fjórar standa sig með mikilli prýði, Lilja Nótt er sterk í hlutverki Móu sem vaknaði einn daginn með kláða í handleggjunum sem aðeins snerting við ungbarn gat linað, Aðalbjörg fer vel með hina rúðustrikuðu Fífu, einkum í einræðunni þar sem hún svefnlaus og buguð segist ekki valda hlutverkinu og María Heba er mjög fyndin á sinn einstaka hátt í hlutverki Andreu sem á barn sem sefur og aldrei grætur skilur ekki af hverju hinar mömmurnar gera bara ekki eins og hún. Kristín Pétursdóttir var einnig skemmtileg sem hin unga og brothætta Júlí sem ætlar að gera allt svo rétt. Hópurinn er þéttur og góður taktur milli leikkvennanna sem hafa augljóslega unnið náið með leikstjóranum, Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur.

Búningarnir eru frekar einfaldir enda hafa ungbarnamæður sjaldnast tíma eða tækifæri til að klæða sig uppá, hvítar joggingbuxur og joggingpeysur í litum sem kallast á við litina á sviðinu, mjúkum ljósgrænum, gráum og bleikum. Sú sem alltaf virtist vera með allt á hreinu, sem María Heba lék, var í alhvítu sem er einmitt nokkuð sem er óskiljanlegt þeim mæðrum sem eiga börn sem gubba reglulega yfir sig og þær.

Þarft á tímum glansmynda

Leikmyndin var sniðug, í miðjunni var einskonar Ikea leikturn sem þjónaði ýmsum hlutverkum og marglitar leikmottur voru á gólfinu. Marglitar skrautpappírstætlur sem héngu niður úr loftinu og skrautpappírsbogar eða hlið sem voru færanleg gerðu einnig sitt til að búa til barnaherbergisstemmingu en hefði kannski verið skemmtilegt að sjá meiri og fjölbreyttari notkun á þeim. 

Í lokin þakka leikkonurnar svo sínum eigin mæðrum fyrir þeirra framlag og þá var ekki laust við að einhverjum í salnum vöknaði um augu. Nýbakaðar mæður og foreldrar ungra barna og bara allir sem ennþá muna þessa fyrstu mánuði eða eiga þá í vændum, bæði konur og karlar,  ættu svo sannarlega að skella sér á þessa sýningu. Á vorum tímum þar sem við sjáum glansmyndaðar fyrirmyndir sem flestum finnst þær eiga fátt sameiginlegt með er svo mikilvægt að vita að aðrir eru og hafa verið í sömu sporum örvæntingar og alsælu sem fyrsta árið í lífi barns er.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Pabbar geta líka alveg verið mömmur“

Leiklist

Allt í blóma á Akureyri

Leiklist

Sneiðmynd af smásálarlífi þjóðar