„Örugglega besta verk Andra Snæs“

Mynd: RÚV / RÚV

„Örugglega besta verk Andra Snæs“

23.10.2019 - 20:10

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason sé bók sem allir ættu að lesa. „Maður finnur að Andri Snær hefur lagt alla sína orku og sál í þetta,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir.

„Hann á brýnt erindi í þessari bók til að segja okkur frá hættunni sem vofir yfir okkur,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir um bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, „en hann þarf líka að fá lesandann til að fylgja sér.“ 

Andri Snær fjallar á persónulegan hátt um loftslagsvána í bókinni og í henni tvinnar hann saman frásagnir af ömmum, öfum og frændum. „Mér finnst þetta ekki sjálfhverft vegna þess að hugur manns leitar óneitanlega til fólks af þessari kynslóð sem maður þekkti,“ segir Kolbrún. „Það var kynslóð sem nýtti allt, það var ekki verið að henda og það var gengið vel um. Við höfum týnt þessu og verið afskaplega kærulaus. Hann tengir okkur við þessa kynslóð í alls kyns sögum“

Andri Snær kemur víða við í bókinni, í henni eru tvö viðtöl við Dalai Lama og Tolkien kemur einnig við sögu. „Frásögnin sjálf er mjög heillandi. Þetta er afskaplega vel skrifuð bók og hann leiðir mann áfram, skilur mann eftir og maður lofar að verða aðeins betri manneskja.“ 

Sverrir Norland segir að Andri Snær komist vel frá erfiðu og umfangsmiklu verkefni. „Vandinn við hamfarahlýnun og þessar loftslagsbreytingar er að þær eru svo stórar að þær smætta einstaklinginn niður í ekki neitt. Og um hvað fjallar góður skáldskapur? Hann fjallar um hið einkanlega? Þess vegna hefur verið mjög erfitt fyrir marga höfunda að skrifa um þetta og fást við. En það sem hann gerir hér er að hann nálgast þetta úr öfugri átt en maður hefði búist við og skoðar þetta sammannlega og smáa,“ segir Sverrir. Andri Snær sé hins vegar svo flinkur og fágaður höfundur að það vanti upp á slagkraft og ógn í bókinni. „Þetta er næstum of vel gert ... Jafnvel þó allar staðreyndirnar séu hérna og þetta sé ótrúlega vel unnin bók þá fannst mér stundum skorta drunga og neikvæðni. Neikvæðni er framfaraafl líka.“

Sverrir og Kolbrún eru sammála um að bókin sé ekki of persónuleg. „Maður finnur að Andri Snær hefur lagt alla sína orku og sál í þetta. Maður finnur að þetta hefur tekið langan tíma. Maður finnur næstum því sársaukann. Þetta er skyldulesning fyrir alla og hvar sem er í heiminum áttu að geta lesið þessa bók af ánægju,“ segir Kolbrún. „Þetta er alveg örugglega besta verk Andra Snæs.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókin hefði ekki orðið til án listamannalauna

Bókmenntir

Hið röklega tengt við tilfinningastrengi

Bókmenntir

Allsherjar breyting á öllu framundan