Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Örn fluttur í Húsdýragarðinn

28.01.2016 - 18:46
Mynd: Einar Rafnsson / RÚV
Haförn sem fannst með laskaðan væng á Snæfellsnesi í fyrradag var færður í Húsdýragarðinn til aðhlynningar í morgun. Dýrafræðingur telur að örninn, sem er kvenkyns ungi, hafi lent í vargi eða flogið á eitthvað með þessum afleiðingum en á von á að hann nái sér að fullu.

Það voru ferðamenn sem rákust á örninni í fyrradag skammt vestan við Stykkishólm. Hann blakaði öðrum vængnum en gat ekki flogið og því kom upp grunur um að hann væri vængbrotinn. Ferðamennirnir létu starfsmenn Bjarnarhafnar vita og í gær náðu þeir fuglinum með aðstoð starfsmanna Náttúrustofu Vesturlands. Auglýst var á Facebook eftir fari í bæinn, sem svo fékkst.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofun Íslands segir að fuglinn hafi svo verið færður til skoðunar á Dýraspítalann í morgun. „Þá kom í ljós að hann vantaði nokkrar mikilvægar handflugfjaðrir, sem er nú óvenjulegt á þessum árstíma. Það er yfirleitt á haustin sem hann fellir fjaðrir.“

Kristinn segir ekki liggja fyrir hvað komið hefur fyrir örninn. „Hann gæti hafa lent í einhverjum vargskjafti eða hugsanlega flogið á, en allaveg nóg til að skaða vænginn.“

Kristinn telur líklegt að örninn nái sér að fullu. „Batahorfur eru góðar og þessar fjaðrir sem vantar eru nú allar að vaxa og munu verða fullvaxta eftir nokkrar vikur. Ég geri ráð fyrir því að einhvern tímann í febrúar þá fái hann að fljúga frjáls að nýju.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV