Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Örlög Íslands í Eurovision ráðast brátt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Örlög Íslands í Eurovision ráðast brátt

07.06.2019 - 15:53

Höfundar

Framkvæmdanefnd Eurovision kemur saman til fundar á næstu vikum þar sem brot Hatara, fulltrúum Íslands í keppninni í Ísrael, á reglum hennar verður rætt. Þar verður ákveðið hvort Íslandi verði refsað og þá hvaða refsingum verði beitt.

Liðsmenn Hatara drógu upp palestínska fánann þegar tilkynnt var hversu mörg stig lagið Hatrið mun sigra hefði fengið í símakosningunni. Öryggisvörður fjarlægði fánana og strax var kallað eftir því að Íslendingum yrði refsað.

Fjölmiðlafulltrúi Eurovision sagði í svari við fyrirspurn fréttastofu að fundað yrði um málið á næstu vikum og  jafnframt að Eurovision myndi ekki tjá sig frekar.

Í tilkynningu frá Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, í maí sagði að liðsmenn Hatara hefðu gerst brotlegir við reglur Eurovision, sem er ópólitísk.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir í samtali við fréttastofu að ekki hefði verið haft samband við RÚV vegna málsins.

Listin tól til að spyrja spurninga

Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvari Hatara, sagði í viðtali við RÚV að „ekkert annað“ hafi verið í stöðunni en að veifa palestínskum fánum.

„Okkur finnst alltaf mikilvægt að nota listina sem tól til að spyrja spurninga, koma hlutunum út fyrir það samhengi sem þeir eru í og láta fólk velta fyrir sér stóru spurningunum. Þetta var ein leið til þess,“ sagði Matthías.

Uppátækið vakti mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum og sitt sýndist hverjum.

„Mér brá bara, óneitanlega, og hafði einhvern veginn ekki búist við því að þetta kæmi. Þetta var ákvörðun listamannanna, algjörlega,“ sagði Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins í Eurovision í viðtali við fréttastofu. Jon Ola Sand framkvæmdastjóri keppninnar kom að máli við Felix strax eftir atvikið og tjáði honum að það myndi draga dilk á eftir sér.

Margir mótmælt uppátækinu

Tæplega 45 þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista þar sem þessi er krafist að Íslandi verði meinuðu þátttaka í Eurovision vegna framgöngu Hatara.

Menningarmálaráðherra Ísrael Miri Regev gagnrýndi Hatara á ríkisstjórnarfundi 19. mái og taldi hljómsveitina hafa gert mistök.

Simon Wiesenthal-stofnunin og Samtök breskra lögfræðinga fyrir Ísrael, UKLFI, sendu frá sér yfirlýsingu 20. maí þar sem þess var krafist að Íslandi yrði meinuð þátttaka í Eurovision á næsta ári sem fram fer í Hollandi.

Starfsmaður ísraelska flugfélagsins El Al birti mynd á lokuðum hópi starfsmanna sem sýndi sætaskipan í flugvél sem íslenski hópurinn ferðaðist með frá Ísrael að keppni lokinni. Undir myndina var skrifað: „Svona förum við með Íslensku sendinefndina“ og vísaði textinn til þess að sætaskipanin væri hefnd fyrir athæfi Hatara á lokakvöldi Eurovision.

Hann var síðar rekinn en samkvæmt flugfélaginu var það ekki vegna hvernig skipað var í sætin heldur væri um að ræða brot á trúnaði með opinberri birtingu á trúnaðargögnum fyrirtækisins.

Tengdar fréttir

Söngvakeppnin

Missti vinnuna vegna Hatara

Innlent

Mikið gert úr hegðun Hatara í græna herberginu

Tónlist

„Engin árás fólgin í að veifa fána“

Innlent

Matthías geymdi borðann ofan í stígvélinu