Mohammad bar sig vel eftir langt ferðalag frá Líbanon til Íslands, með viðkomu í Tyrklandi og Finnlandi. „Ferðalagið var kannski dálítið langt. Við erum óvön þessum ferðamáta. Þetta var í fyrsta skiptið sem við ferðuðumst með flugvél,“ sagði Mohammad.
Í dag komu fimm fjölskyldur til landsins og ferðalagi þeirra var ekki lokið í Keflavík. Næst fóru þau í rútu til Hvammstanga þar sem bíða þeirra ný heimili. „Mig langar að þakka öllum Íslendingum og íslenskum yfirvöldum fyrir að aðstoða okkar. Og kærar þakkir til allra sem hafa tekið hér á móti okkur,“ sagði Mohammad.
Hann var nýlentur þegar fréttastofa náði af honum tali og hann virtist örlítið hissa á snjóleysinu. „Ég sá Ísland úr flugvélinni og það var ofboðslega fallegt og ólíkt því sem okkur hafði verið sagt. Þau sögðu að það væri kalt og snjór en það var ekkert slíkt.“
Hvað vissirðu um Ísland áður en þú komst?
„Að hér væri ekki fjölmenn þjóð, að hér væri öryggi,“ sagði Mohammad.