Orkuþörf gagnavers á við öll heimili landsins

25.02.2018 - 19:20
Fyrsta gagnaver Reykjavíkur verður reist á Korputorgi á árinu. Þegar full nýting verður komin á verið verður orkuþörf þess á við orkuþörf allra heimila landsins samanlagt. Kostnaður við fyrsta áfanga gagnaversins er milljarður króna.

Skrifað var undir saminga um byggingu gagnaversins í dag en framkvæmdin  er samstarfsverkefni Opinna kerfa, Reiknistofu bankanna, Vodafone og Korputorgs. Opin kerfi sjá um uppsetningu versins, sem verður umhverfisvænt og hátæknilegt. Það verður byggt á hluta bílastæðisins á Korputorgi og verður um fimm þúsund fermetrar. 

„Þetta er frábær staðsetning, hér er auðvelt að fá mikið af vistvænni orku. Við erum í hjarta ljósleiðaranetsins, hér eru öll innviði Reykjavíkurborgar, stutt á flugvöllinn í Keflavík. Þannig þetta er kjörlendi fyrir hátæknigagnaver,“ segir Þorsteinn G. Gunnarsson forstjóri Opinna kerfa. 

Allt sem gerist á netinu fer í gegnum gagnaver og eru þau því forsenda upplýsingatækni. Þorsteinn segir mikil sóknarfæri í byggingu gagnavera, og  gerir ráð fyrir að gagnaverið á Korputorgi skapi beint og óbeint hátt í tvö hundruð ný störf. 

„Það mun fara létt í að fara í tuttugu til þrjátíu megavött og til að setja þá orku í samhengi, þá er það svipað og öll heimili á landinu eru að nota. Gagnaverin eru í dag komin í hátt í tíu prósent, eða sjö prósent  af allri orku sem er notuð í heiminum, og eru að vaxa gríðarlega. Þannig þetta er umtalsvert, og tækifæri Íslands mikið í þessu,“ segir Þorsteinn. 

Ísland er talið vera mjög öruggt land fyrir gangaver, en eins og fram kom í fréttum í vikunni voru níu manns handteknir í byrjun árs í tengslum við þrjú innbrot í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð. Verðmæti þýfisins er talið nema rúmum 200 milljónum króna. Þorsteinn er fullviss um að óboðnir gestir komist hvorki inn í nýja gagnaverið utan frá né í gegnum netið. 

„Við getum horft á það að þetta gagnaver verður rammgert, eins og öryggisfangelsið á Hólmsheiði, þannig að hér verður vonandi aldrei brotist inn.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi