Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Orkupakkinn tekinn af dagskrá vegna fundahalda

31.05.2019 - 10:48
Mynd: Birgir Þór Harðarson / Birgir Þór Harðarson
Umræðu um þriðja orkupakkann sem átti að halda áfram á Alþingi klukkan 10.40 var frestað um óákveðinn tíma. Þetta var gert eftir að formenn þingflokkanna settust á fund í dag til að ræða framgang mála á Alþingi. Að þeim fundi loknum var ákveðið að forystumenn flokkanna á þingi hittust klukkan ellefu og reyndu að finna leiðir til að rjúfa þá pattstöðu sem er á Alþingi vegna málþófs þingmanna Miðflokksins um þriðja orkupakkann.

Í stað þriðja orkupakkans hófu þingmenn því umræðu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, þingsályktunartillögu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði undarlegt að komast í ræðustól að ræða málið eftir að hafa þurft að bíða í tíu daga. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði þá að biðin væri hálfur mánuður. Léttara virtist yfir þingmönnum en oft áður undanfarið og mátti heyra nokkurn hlátur í þingsalnum.

Forseti Alþingis sagði við upphaf þingfundar að forystumenn flokka hygðust eiga fund klukkan ellefu til að leita leiða til að ná samkomulagi. Því varð niðurstaðan af fyrri fundi þeirra í morgun að víkja frá röð mála á dagskrá. Þriðji orkupakkinn var því tekinn af dagskrá og mál sem honum tengjast.

Umræðan um þriðja orkupakkann er orðin sú næstlengsta á Alþingi síðan það var sameinað í eina deild árið 1991. Hún hefur staðið í 134 klukkustundir og átta mínútur. Hún er klukkustundu styttri en umræðan um Icesave og er orðin hálfum öðrum sólarhring lengri en umræðan um EES-samninginn. Umræðan um EES-samninginn var lengi langlengsta umræðan á Alþingi og sú fyrsta sem náði því að standa yfir í hundrað klukkustundir.

Fréttin hefur verið uppfærð.