Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Orkumálastjóri gagnrýnir áform um þjóðgarð

29.07.2019 - 20:12
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Orkumálastjóri segir að það geti haft slæmar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir ef núverandi tillögur um miðhálendisþjóðgarð verða að veruleika. Ekki sé nóg að horfa einungis til náttúruverndar.

Kemur ekki í veg fyrir viðhald virkjana

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, sagði í kvöldfréttum í gær að hugmyndin að baki miðhálendisþjóðgarði væri að banna vöxt og viðhald núverandi virkjana. Óli Halldórsson formaður nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu segir það ekki rétt að ef til þess kæmi að virkjanir yrðu innan þjóðgarðsins myndi það koma í veg fyrir viðhald á þeim.

Virkjunarsvæði á hálendinu séu stór og umfangsmikil og þau standi. Þeim verði því haldið við og geti verið rekin með sómasamlegum hætti, „En ekki verði virkjuð ný orkuvirkjunarsvæði á hálendinu," segir hann. Nefndin muni leggjast yfir athugasemdir um að það kunni að vera betra að hafa virkjanasvæði utan þjóðgarðsins.

Ekki megi dæma komandi kynslóðir til fátæktar

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri hjá Orkustofnun telur tillögurnar ekki vel undirbúnar, því hafi ekki verið svarað hverju sé verið að fórna ef allt svæðið yrði friðlýst. Horfa verði á þetta út frá sjálfbærni.

 „Við erum ekki bara að skoða þetta út frá náttúruvernd heldur áhrif á samfélag og efnahagslíf þjóðarinnar til framtíðar. Það er þannig að við megum ekki girða fyrir möguleika komandi kynslóða, megum heldur ekki dæma þessar kynslóðir til atvinnuleysis og fátæktar í framtíðinni," segir Guðni en hann segir að það að útiloka alla virkjunarkosti á miðhálendinu geti haft víðtækar afleiðingar.

 „Það þýðir augljóslega minni möguleika til atvinnusköpunar í landinu, hærra raforkuverð til lengri tíma og þeir sem verða skildir eftir utan þessa svæðis verða ekki eins hagkvæmir," segir hann.

Hópur um orkustefnu ekki lagst yfir tillögur um þjóðgarð

Stefnt er að því að starfshópur um orkustefnu fyrir Ísland skili af sér tillögum í febrúar á næsta ári. Formaður hópsins, Guðrún Sævarsdóttir, segir hópinn ekki hafa lagst yfir þjóðgarðstillögurnar en að þær þurfi að bera saman við rammaáætlun og kerfisáætlun Landsnets, og það sé vinna sem hópurinn fari nú í. Hún segir mikilvægt að stefnur stjórnvalda séu samræmdar og vinni í sömu átt. „Ég er bjartsýn á að það sé hægt að finna lendingu sem passar upp á bæði nátturna okkar og hagsmuni fólksins i landinu," segir Guðrún.