Orðunefnd einróma í máli Sigurðar Einarssonar

09.12.2015 - 07:34
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Guðni Ágústsson, formaður orðunefndar, segir að algjör samstaða hafi verið um það innan orðunefndar að svipta Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, réttinum til að bera fálkaorðuna. Sigurði hefur verið tilkynnt um ákvörðun orðunefndar bréfleiðis. Hann þarf ekki að skila orðunni strax en má ekki bera hana.

Fram kemur á vef forsetaembættisins að Sigurður hafi verið sviptur réttinum til að bera orðuna á grundvelli 13. greinar Forsetabréfs um fálkaorðuna, þar sem segir að „Stórmeistari getur, að ráði orðunefndar, svipt hvern þann, sem hlotið hefur orðuna en síðar gerst sekur um misferli, rétti til að bera hana.“ 

Sigurður var sæmdur fálkaorðunni fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi árið 2007. Hæstiréttur dæmdi Sigurð í 4 ára fangelsi í febrúar á þessu ári fyrir aðild sína að Al Thani - málinu svokallaða og í framhaldinu hófst umræða um hvort svipta ætti hann fálkaorðunni.

Nú, tíu mánuðum eftir dómurinn féll, komst orðunefnd fálkaorðunnar að þeirri niðurstöðu, einróma, að svipta Sigurð réttinum til að bera fálkaorðuna. „Það er forsetinn sem sviptir að tillögu orðunefndar. Það eru nokkrar vikur síðan,“ segir Guðni í samtali við fréttastofu í morgun.

Guðni segir að orðunefndin hafi lagt þetta til við forsetann og að fjallað hafi verið um málið á fundum nefndarinnar á þessu ári. „Við reyndum að vanda okkur í því að fara yfir málið.“ Samstaða hafi verið um þessa ákvörðun innan nefndarinnar - hún hafi verið einróma.

Í orðunefndinni eiga - auk Guðna - sæti Ellert B. Schram, fyrrverandi þingmaður, Rakel Olsen, framkvæmdastjóri, Ólafur Egilsson, fyrrverandi sendiherra, Þórunn Sigurðardóttir, leikstjóri, og Örnólfur Thorsson, orðuritari.

Guðni segir að þetta sé það sem orðunefndin geti gert - að svipta menn réttinum til að bera fálkaorðuna. Engar reglur segi til um að menn þurfi í framhaldinu að skila orðunni strax. 

Í 14. grein Forsetabréfs um hina íslensku fálkaorðu segir að: „Við andlát þess er orðunni hefur verið sæmdur skulu aðstandendur eða skiptastjóri skila henni aftur til orðuritara. Í útlöndum má fá sendiráðum og ræðismönnum orðurnar til frekari fyrirgreiðslu.“ Að sögn Guðna gilda þessar reglur um Sigurð sem og aðra orðuhafa.

Guðni segir að þetta hafi aldrei verið gert áður - að maður hafi verið sviptur réttinum til að bera fálkaorðuna. Hann upplýsir að Sigurði hafi verið tilkynnt um þessa ákvörðun nefndarinnar bréfleiðis en stjórnarformaðurinn fyrrverandi afplánar nú dóm fyrir Al Thani- málið á Kvíabryggju. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi