Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Orð*um esperanto, Þórberg og afa

Mynd: Þórey Mjallhvít / Baldur Ragn / Þórey Mjallhvít www.mjallhvit

Orð*um esperanto, Þórberg og afa

04.10.2018 - 17:29

Höfundar

Íslenskar bókmenntir á esperanto eru á dagskrá í bókmenntaþættinum Orð*um bækur að þessu sinni.

Draumurinn um hið fullkomna tungumál hefur lengi lifað með mannkyninu, um alþjóðamál sem sameinar okkur öll og kemur í veg fyrir misskilning og sundurlyndi. Undir lok 19. aldar og við upphaf hinnar 20. voru gerðar ýmsar tilraunir til að semja hlutlaust alþjóðamál og er langvinsælast þessara mála esperanto en talið er að allt að tvær milljónir manna kunni esperanto í dag.

Höfundur esperantos var Ludwig Lejzer Zamenhof sem fæddist 1859 í borginni Bialystok, sem nú tilheyrir Póllandi en var þá innan stórrússneska keisaradæmisins. Fyrsta kennslubókin í nýja málinu kom út 1887, skrifuð undir dulnefninu Dr. Esperanto, en esperanto merkir á þessu nýja máli „Sá sem vonar“.

Esperanto hefur í gegnum tíðina notið vinsælda hér á landi og fjöldi íslenskra bóka hefur komið út á málinu, bæði þýðingar og frumsamin verk. Þar á meðal eru nokkur verk eftir afa þáttarstjórnanda, Baldur Ragnarsson. Hann hefur gefið út sjö ljóðabækur á esperanto og þýtt íslenskar fornsögur og skáldsögur yfir á málið. Í þættinum er sagt frá verkum Baldurs og frá skrifum Þórbergs Þórðarsonar um alþjóðamál og esperanto. Einnig er rætt við Benedikt Hjartarson bókmenntafræðing um Þórberg og esperanto.

Áhugasamir geta lesið fleiri íslensk ljóð á esperanto á óðfræðivefnum Braga. Einnig er að finna fjölmörg ljóð, greinar og bréf í veftímaritinu La Tradukisto eða Þýðandinn, sem kom fyrst út 12. mars 1989 á hundrað ára afmæli Þórbergs Þórðarsonar og er helgað honum.

6. október 2018 er fjallað um íslenskar bókmenntir á esperanto, Baldur Ragnarsson og Þórberg Þórðarson, í bókmenntaþættinum Orð*um bækur á Rás 1.

Umsjónarmaður er Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og lesari með henni er Jóhannes Ólafsson.