Þáttarstjórnandi hamast nú við að hreinsa til í eigin bókaskápum, en tuttugu bókakassar liggja á gólfinu í borðstofunni og bækurnar þurfa að komast upp í hillur sem nú þegar eru troðfullar.
Hvað eigum við til bragðs að taka þegar við þurfum að grisja í bókahillunum okkar? Hvaða bækur ættum við fjarlægja og hvað í ósköpunum eigum við að gera við þær? Ættu þessar affallsbækur að fara niður í kassa sem staflað er upp í kjallaranum, óopnaðir næstu áratugina? Eða ætti eigum við að reyna pranga þessum bókum inn á vini sem flestir eru einnig með troðfullar bókahillur? Vilja bókasöfn eða fornbókasölur taka á móti þessu bókafargani, þessum bókum sem eru hvorki fágætar né verðmætar? Eða skulu þessar bækur fara í Sorpu? Hvað gerist við bækur sem settar eru í hirðinn góða í Sorpu? Eru þær seldar áfram eða enda þær í endurvinnslutunnunni?
Í þættinum fer þáttarstjórnandi í ferðalag um Reykjavík og ræðir við fólk um hvað gerist við bækurnar sem við grisjum úr bókaskápunum okkar. Þáttarstjórnandi ræðir við Eirík Ágúst Guðjónsson í fornbókaversluninni Bókinni Antikvariat á Hverfisgötu, við Pálínu Magnúsdóttur borgarbókavörð og Ingva Þór Kormáksson verkefnastjóra safnkosts í Borgarbókasafninu, við Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð, Friðrik Ragnarsson verslunarstjóra Góða hirðisins og Gyðu Björnsdóttur sérfræðing í sjálfbærni hjá Sorpu.
Einnig er gluggað í bókina Bókasafn föður míns: sálumessa (samtíningur) eftir Ragnar Helga Ólafsson, son Ólafs Ragnarssonar bókaútgefanda sem stofnaði Vöku bókaforlag og Veröld bókaforlag. Ólafur lést árið 2008 og skildi eftir sig veglegt bókasafn sem kom í hlut erfingja hans að fara í gegnum. Ragnar Helgi skrifaði bókina Bókasafn föður míns um þessa reynslu, en hún kom út í aðeins 69 eintökum, var til sölu í tvær klukkustundir fimmtudaginn 28. júní 2018, og í lok dags voru öll óseld eintök brennd.
Umsjónarmaður er Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og lesari með henni er Kristján Guðjónsson.