
Opna verslun á ný í Árneshreppi
Um hundrað kílómetrar í næstu verslun
Hillur og ísskápar hafa staðið tómir í versluninni í Norðurfirði í Árneshreppi í vetur. Úr Norðurfirði eru um hundrað kílómetrar, á malarvegum, í næstu verslun. Gunnsteinn Rúnar Gíslason býr í Norðurfirði og er einnig stjórnarmaður í Verzlunarfélagi Árneshrepps. Hann segir verslunarleysið ekki hafa gengið illa fyrir þá sem að búa í sveitarfélaginu en verra fyrir þá sem koma og fara, þeir geri ráð fyrir verslun.
Fá vörur með flugi
Ekki er mokað í Árneshreppi yfir háveturinn. Íbúar, sem voru þó aðeins á annan tug, treystu því á vöruflutninga með flugi og sveitarfélagið greiddi nokkrum sinnum fyrir mokstur í hreppinn til móts við Vegagerðina. „Við lifðum góðu lífi sem voru hérna heima, við fórum bara aftur í aldir og versluðum á haustin og svo aftur um vorið,“ segir Gunnsteinn.
Stofnuðu verslunarfélag
Í vetur var stofnað hlutafélag til að reisa við verslunarrekstur í hreppnum og gafst velunnurum hreppsins kostur á að kaupa hlut í versluninni fyrir hámark 100 þúsund krónur. Um fjórar milljónir söfnuðust. Þá fékk sveitarfélagið sjö milljóna króna styrk frá Byggðastofnun til að reka verslun. Áætlað er að verslunin opni á ný fyrir hvítasunnu. „Ég verð hérna í sumar og svo á verslunin að vera hérna áfram. Og verður yfir veturinn, það er búið að gera ráð fyrir því að veltan verði minni, enda færra fólk en henni verður haldið áfram og svo framvegis,“ segir Árný Björk Björnssdóttir, sem hefur verið ráðin sem verslunarstjóri í sumar.
„Við getum ekki annað verið en ánægð með að þetta er komið í gang. Það er mesta verkið að starta þessu, hverju sem er,“ segir Gunnsteinn.