Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Opna þjóðveginn aftur eftir hreinsun

07.03.2020 - 09:43
Innlent · færð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Veður undir Eyjafjöllum er ekki jafn slæmt og óttast var. Þjóðvegi 1 milli Hvolsvallar og Víkur í Mýrdal var lokað í morgun vegna veðurs. Nú er verið að hreinsa veginn sem svo verður opnaður aftur. Mikill skafrenningur er þó á leiðinni og sterkar vindhviður við Pétursey. Vegfarendur eru beðnir um að aka varlega.

Þokkaleg vetrarfærð er um allt land. Vegagerðin segir þó sjálfsagt að fylgjast með veðurhorfum ef fara á langt. 

Þæfingsfærð er á Hellisheiði, snjóþekja á Sandskeiði og hálkublettir í Þrengslum. Þæfingur er á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja á Þröskuldum en lokað um Kollafjarðar- og Þorskafjarðar- og Dynjandisheiði, og líka Strandaveg norðan Bjarnarfjarðar. Hált er á Þverárfjalli og hálka eða hálkublettir á þjóðvegi 1 allt frá Miðfirði til Víkur - þar sem vegurinn er lokaður.