Opna leikskóla að nýju fyrir forgangshópa á mánudaginn

26.03.2020 - 22:30
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Kórónuveirusmit hefur greinst í starfsfólki beggja leikskólanna í Borgarnesi. Þeir eru nú lokaðir, ekkert leikskólastarf í bænum og 125 börn heima hjá sér. Vonast er til að opna annan þeirra að nýju á mánudaginn. Starfsmaður ráðhúss sveitarfélagsins er einnig smitaður.

Í gær var leikskólanum Klettaborg lokað, þar voru tveir starfsmenn greindir og er grunur um fleiri. Allt starfsfólk leikskólans og börn eru í sóttkví til 8. apríl, yfir 70 manns. Ekki er líklegt að skólahald hefjist á Klettaborg að nýju fyrr en eftir páska.

Þá var leikskólanum Uglukletti lokað á mánudaginn þegar starfsmaður greindist með kórónuveiruna. Nokkrir aðrir starfsmenn eru í sóttkví vegna þess en engin börn. Enginn leikskóli er nú opinn í bænum.

Þórdís Sif Sigurðardóttir segir að vonast sé til að hægt sé að opna Ugluklett og bjóða börnum úr forgangshópi skólavist eftir helgi.

„Núna er verið að hreinsa Ugluklett. Hann verður sótthreinsaður um helgina og vonandi verður búið að því á mánudaginn. Það verður haft samband við foreldra barna á Uglukletti og þau sem eru á forgangslista, þeim boðin leikskólastaða eftir helgi,“ segir hún.

Hún segir ekki hægt að útvega pössun fyrr en þá.

„Já, í dag og á morgun, en það er stutt í helgina og ég held að það séu allir tilbúnir til þess að vinna vel og saman að þessum málum. Það er mikil samstaða í sveitarfélaginu finnur maður og fólk bara sýnir þessu mikinn skilning.“

Þá hefur einn starfsmaður í ráðhúsi Borgarbyggðar greinst með veiruna. Þórdís segir hann hafa verið að vinna heima þegar hann greinist og finnur til einkenna.

„Þar af leiðandi hefur þetta ekki áhrif á neina aðra stafsmenn í ráðhúsinu. Við höfum líka gert þetta í samráði við rakningarteymið, og í raun eru margir farnir að vinna heima.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi