Opinberum störfum fækkar á Vesturlandi

11.01.2020 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Hvergi á landinu eru ríkisstörf jafnfá og á Vesturlandi. Í Stykkishólmi hefur þeim fækkað hlutfallslega um tæp 25% á síðustu sex árum. Þetta kemur fram í nýjum hagvísi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Þar sést að á landshlutanum hefur opinberum störfum jafnframt fækkað hlutfallslega mest á landinu, um fimm prósent.

Vífill Karlsson hagfræðingur samtakanna segir að úrræði á við skattaívilnanir eða hagstæðari námslán henti ekki til að stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Fjölgun ríkisstarfa sé ákjósanlegri og jafni kynjahlutföll. 

„Miklu fleiri konur sem sækja háskólanám heldur en karlar í augnablikinu,“ segir Vífill. „Ef við viljum styðja við fjölgun kvenna, en einmitt hefur það verið vandamál í þessum fámennu byggðum, að það skortir konur, þá er þetta enn ein leiðin til þess að styðja við möguleika kvenna á landsbyggðinni.“ 

Vífill segir að ráðherrar og stjórnendur stofnana verði að staðsetja störf á landsbyggðinni eða bjóða störf án staðsetningar í samræmi við stefnu um byggðaþróun. „Það má líka hugsa sér að þegar ný störf koma eða nýjar stofnanir að þær geti verið staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig það þarf ekkert að hugsa alltaf um beinan flutning í sjálfu sér.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi