OMAM aflýstu tónleikum vegna eldanna í Ástralíu

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / Canon Mark 1D-X

OMAM aflýstu tónleikum vegna eldanna í Ástralíu

08.01.2020 - 15:46

Höfundar

Of Monsters and Men var að enda við að leika á tónleikum í Sydney en sveitin hefur verið í Ástralíu undanfarna daga sem er liður í heimstónleikaferðalagi þeirra til að fylgja úr hlaði breiðskífunni Fever Dream.

Gítarleikarinn Brynjar Leifsson var nýkominn upp á hótel þegar Síðdegisútvarpið náði tali af honum en eldarnir í Ástralíu hafa svo sannarlega ekki farið fram hjá sveitinni. „Í dag hafði vindáttinn snúist og það var þvílík mengun í borginni og mælt með því að fólk væri ekki á ferli utandyra. Við áttum líka að spila á festivali í síðustu viku fyrir utan Melbourne og það varð bara að aflýsa því vegna eldhættu.“ Þau eru hins vegar á leið til Melbourne á föstudag til að leika á eigin tónleikum. „Vonandi verður ekki eitthvað eldsár í gangi þá.“

Brynjar segir hitann í Ástralíu um þessar mundir vera geigvænlegan en sveitin hafi þó skemmt sér konunglega á ferðalaginu. Fever Dream kom út síðasta sumar og hjá hljómsveit af þessari stærðargráður þýðir það bara eitt: „Ræsa rúturnar, stilla nokkra gítara og spila fyrir fólk, halda ball.“ Á laugardaginn leggja þau svo enn og aftur land undir fót og fljúga til Tælands og svo Taívan, Hong Kong, Singapore og Japans. „Síðan er smá pása þangað til festival-túrinn byrjar í apríl. Þá förum við um Bandaríkin í fimm-sex vikur og svo Evrópa aftur. Þannig er nóg eftir,“ segir Brynjar en þá hefur sveitin verið í tónleikaferðalagi í rúmt með smá hléum. 

Þrátt fyrir stífa dagskrá og mikið návígi hjá liðmönnum OMAM segir Brynjar góðan anda innan hljómsveitarinnar. „Þetta er mikil vinna. Maður mætir kannski í viðtöl eða að spila á útvarpsstöðum á morgnana. Yfirleitt  er hljóðprufa klukkan þrjú, fjögur á daginn og tónleikar níu. Þú ert að gera þetta kannski fimm daga í röð og við nennum ekki að gera mikið annað en þetta. Þetta er ekki mikið glamúr og djamm eins og margir halda. En þetta er geðveikt gaman samt.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Of Monsters and Men í þætti Ellenar

Popptónlist

Of Monsters and Men hjá Jimmy Kimmel

Popptónlist

Of Monsters and Men spilar á Airwaves

Tónlist

Fyrsta lag Of Monsters and Men í fjögur ár