Ólympíueldurinn tendraður í skugga COVID-19

epa08289066 Greek torchbearer Anna Korakaki (L), 2016 Olympic gold medallist in 25m pistol, receives the Olympic flame from Greek actress Xanthi Georgiou (R) in the role of the High Priestess during the Lighting Ceremony​ of the Olympic Flame for the Tokyo Summer Olympics, in front of Hera Temple in Ancient Olympia, Greece, on 12 March 2020.  EPA-EFE/VASSILIS PSOMAS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA

Ólympíueldurinn tendraður í skugga COVID-19

12.03.2020 - 15:25
Ólympíueldurinn var tendraður við hátíðlega athöfn í borginni Ólympíu í Grikklandi í dag en þaðan heldur ólympíukyndillinn af stað í ferðaleg til Tókýó í Japan. Ólympíuleikarnir hefjast þar í borg 24. júlí en Alþjóðaólympíunefndin, IOC, heldur því fram að leikarnir fari fram samkvæmt áætlun þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn.

Í fyrsta sinn frá árinu 1984 voru engir áhorfendur viðstaddir athöfnina í dag en það var Anna Korakaki sem hljóp fyrsta spölinn með kyndilinn. 

Korakaki vann til gullverðlauna í skotfimi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 en hún varð í dag fyrsta konan til að taka við kyndlinum í Ólympíu.

Thomas Bach, forseti IOC, sagðist við athöfnina í dag vera ánægður með þróun mála í sambandi við heimsfaraldurinn og Ólympíuleikanna. „Nítján vikum fyrir setningarathöfn leikanna höfum sýnt styrk okkar með því að samræma fjölmargar stofnanir um heim allan og stigið stór skref í koma böndum á útbreiðslu kórónaveirunnar,“ sagði Bach og bætti við. 

„Þegar ólympíukyndillinn snýr aftur til Tókýó 56 árum síðar, mun loginn tákna von sem breiðist út um allt landið,“ sagði Bach og vísaði þar í Ólympíuleikanna 1964 sem voru einnig haldnir í Tókýó.