Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ólöf Nordal: „Ég stend ekki þegjandi hjá“

13.12.2015 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ef vantraust skapast í svo viðkvæmum málum, sem varðar líf fólks og farsæld er okkur mikill vandi á höndum. Ég hlusta eftir því og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að byggja upp traust,“ sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, í hugvekju á jólavöku Hafnarfjarðarkirkju í kvöld. Ólöf sagði það vera lykilatriði að byggt væri upp traust í málefnum flóttamanna.

Öll spjót hafa beinst að Ólöfu Nordal síðustu daga eftir að tveimur albönskum barnafjölskyldum var vísað af landi brott í síðustu viku. Ólöf sagði í samtali við fréttastofu fyrr í vikunni að hún hefði engar heimildir  til að breyta úrskurðum Útlendingastofnunar eða veita fólki dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hún gerði mál fjölskyldnanna tveggja að umtalsefni í ræðu sinni í kvöld.

Ekki hlutverk ráðherra að taka geðþóttaákvarðanir
„Ég get ekki staðið hér í dag – á tíma þar sem við minnumst komu frelsarans og fyllum hjarta okkar kærleika til náungans án þess að hugsa til þeirra sem hingað hafa komið að leita skjóls og hafa ekki fallið að því kerfi sem við höfum búið okkur,“ sagði Ólöf en benti á að þótt ráðherrar fylgi lögum hafi þeir líka stefnumarkandi hlutverk. Alþingi hafi lokaorðið um hvernig búið sé um hnútana hér á landi.

Hún segir það ekki hlutverk ráðherra að fara inn í einstök mál og breyta ákvörðunum án þess að hafa vald til þess með beinum hætti. Það kalli á geðþóttaákvarðanir, sem hún gæti aldrei sætt sig við. 

Stendur ekki þegjandi hjá
Mál albönsku fjölskyldnanna snerti hana þó djúpt. „Í því máli sem hátt hefur borið undanfarna daga, í málefni barna með sjúkdóma sem nú eru farin til heimalandsins, hef ég ekki lokað augum mínum. Ég stend ekki þegjandi hjá,“ sagði Ólöf. Kerfið verði að tryggja öllum jafnan rétt að lögum.

„Þessi viðkvæmu kerfi, kerfi alþjóðlegrar verndar, byggð á alþjóðlegum sáttmálum um málefni flóttamanna, verða að tryggja jafnræði, verða að vinna hratt og vel, passa að þeir sem eigi rétt á vernd fái hana, en þeir sem vilja flytjast hingað, til dæmis í leit að betra lífi, fari úr þessum farvegi í annan. Og að sjálfsögðu verður að tryggja að farið sé eftir lögum um málefni barna í öllum tilvikum.“

Stefnumarkandi mál
Ólöf harmar þá ákvörðun að mál fjölskyldnanna hafi ekki farið til úrskurðarnefndar, heldur hafi meðferð þess lokið á fyrra stigi stjórnsýslu. 

„Og það er þannig – eins og ég hef sagt – að ráðherra fer ekki einn og sjálfur inn í svona mál. Ég ætla að vera viss um það að allt sé gert með réttum hætti. Það verður að fara að lögum. Ég hef þegar stigið ákveðin skref í þeim efnum,“ sagði Ólöf og bætti því við að hún myndi biðja Alþingi að gera breytingu á því hvernig þessar ákvarðanir eru teknar. 

„Þetta er ekki einkamál eins né neins, þetta er stefnumarkandi mál, þetta eru mannréttindamál og þetta eru viðkvæm mál.  Alþingi er mikilvægt tannhjól í allri slíkri umræðu.“

Getur verið óbærilega sárt að framfylgja lögum
Hún segir að það megi aldrei vera þannig við séum ekki örugg um það að gera rétt á grundvelli laga, en því fylgi líka sú óhjákvæmilega afleiðing að stundum sé óbærilega sárt að gera það. „Þá er ekkert annað að gera en að spyrja sig að því hvort að lögin og reglurnar sem við höfum sett okkur nái utan um það sem þeim er ætlað að gera – og breytum því sem þarf að breyta til batnaðar.“

Skapist vantraust í jafn viðkvæmum málum og þeim sem varði líf fólks og farsæld, sé Íslendingum mikill vandi á höndum.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður