Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Öllum skólum í Reykjavík lokað og læknatímum aflýst

13.02.2020 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Kennsla í öllum grunnskólum og öllum leikskólum í Reykjavík fellur niður á morgun, föstudag. Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið fyrir hádegi á morgun og fólk beðið um að vera ekki á ferli að óþörfu.

„Það á enginn að vera á ferli, nema brýna nauðsyn beri til,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. „Við viljum ekki ana fólki út í umferð til að koma börnum í leikskóla og grunnskóla.“ Þeim tilmælum hefur verið komið til skólastjórenda að þeir verði á staðnum til að taka á móti fólki sem hugsanlega missir af þessum tilmælum.

Lágmarksþjónusta verður í frístundaheimilum fyrir börn þeirra foreldra sem nauðsynlega þurfa að mæta til vinnu. Þú þjónusta er helst hugsuð fyrir börn til dæmis björgunarfólks, sjúkraflutningamanna, slökkviliðsfólks og heilbrigðisstarfsfólks.

Læknatímar falla niður

Allar bókuðar móttökur á starfsstöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins falla niður í fyrramálið. Heilsugæslustöðvar verða opnar á þessum tíma með lágmarksmönnun sem sinnir bráðavandamálum. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á heilsugæslunni, segir að reynt verði að ná í þá sem eiga bókaða tíma og finna nýjan eins fljótt og hægt er.

Þá hefur Háskóli Íslands sent nemendum sínum meldingu um að öll kennsla á vegum skólans falli niður á morgun vegna veðursins. Jón Atli Benediktsson rektor hvetur alla til að fara varlega og fylgjast með tilkynningum Veðurstofunnar. Starfsfólki sem á erfitt með að koma til vinnu er bent á að vinna heima hjá sér, eftir því sem það hefur tök á.