Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Öllum skíðalyftum lokað vegna veirunnar

20.03.2020 - 22:35
Mynd með færslu
Bláfjöll. Mynd úr safni. Mynd:
Allar skíðalyftur og brekkur við þær verða lokaðar frá og með deginum í dag og þangað til samkomubanni verður aflétt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum skíðasvæða á Íslandi. „Þetta er áfall jafnt fyrir okkur sem rekum skíðasvæðin sem og viðskiptavini okkar en við vonumst til að allir sýni þessu skilning og þolinmæði,“ segir í tilkynningunni.

Sóttvarnalæknir hefur lagt áherslu á að nálægð milli fólks sé ekki meiri en tveir metrar, ef því sé við komið. Í tilkynningunni segir að einnig sé ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir, til dæmis varðandi hreinlæti og smitleiðir, að sameiginleg notkun á hvers konar búnaði til íþróttaiðkunar án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar sé mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir. Þetta gildi um skíðalyftur, bolta, dýnur, rimla, handlóð og ýmsan annan búnað til íþróttaiðkunar.

„Við hjá Samtökum skíðasvæða ætlum að virða þessi tilmæli og loka hluta svæðanna eða öllu sem snýr að skíðalyftum, en höfum áfram opnar skíðagöngubrautir en með tilmælum um að ekki sé neitt hópastarf eða samsöfnun á fólki á þeim svæðum heldur eingöngu til æfinga einstaklingsbundið þar sem tveggja metra reglan um  návígi er viðhöfð,“ segir í tilkynningunni. Verði ekki farið eftir þeim tilmælum verður þeim svæðum líka lokað.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir