Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öllu flugi aflýst í dag - Herjólfi snúið við í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Björn Guðjónsson - Aðsend mynd
Öllu innanlands- og millilandaflugi var aflýst í dag vegna veðurs. Landgangar á Keflavíkurflugvelli voru teknir úr noktun klukkan rúmlega eitt í nótt. Röskunin hafði áhrif á ferðir fjölda farþegar, þar á meðal 3.000 farþega Icelandair.

Allt lítur út fyrir að veður raski ekki flugi til og frá Keflavíkurflugvelli á morgun. Þetta er í ellefta sinn síðan í október sem landgangar á Keflavíkurflugvelli eru teknir úr notkun vegna veðurs, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia. Síðasta vetur var það gert sautján sinnum. Guðjón segir að óveður nú í vetur hafi þó yfirleitt varað í lengri tíma en þau gerðu síðasta vetur. 

Vegna veðurs var Herjólfi var snúið við aftur til Vestmannaeyja í kvöld. Ferðin sem áætluð var í kvöld klukkan korter í níu fellur því niður. Á Facebook síðu Herjólfs kemur fram að þessi ákvörðun sé tekin með öryggi farþega í huga. 

Flugferðir á morgun á áætlun

Icelandair hefur aflýst sex flugferðum til og frá Evrópu eftir hádegi í dag og öllum flugferðum til og frá Bandaríkjunum seinni partinn var aflýst. Raskanirnar höfðu áhrif á ferðir 3.000 farþega flugfélagsins í dag. 

Brottfarir véla Icelandair í kvöld frá Bandaríkjunum og Kanada til Íslands eru á áætlun. Allt flug Icelandair til og frá landinu í fyrramálið er á áætlun og er ekki er gert ráð fyrir frekari röskunum á flugferðum um helgina. 

Vel hefur gengið að greiða úr málum farþega vegna raskana, er haft eftir Ingibjörgu Ásdísi Ragnarsdóttur, forstöðumanni þjónustu og upplifunar hjá Icelandair.

Icelandair hefur aflýst 200 brottförum í janúar

Síðan í október hefur Icelandair aflýst 200 brottförum, þar af 130 í janúar og 50 í dag, segir í tilkynningunni. Þetta eru 3 prósent af brottförum félagsins á tímabilinu. „Það eru ávallt árssveiflur í veðrinu en við erum alltaf undirbúin að takast á við raskanir á flugi vegna veðurs. Markmið okkar er að koma farþegum okkar sem fyrst á áfangastað á sem öruggastan máta og að truflun farþega verði sem minnst,“ er haft eftir Ingibjörgu í tilkynningunni.

„Það er ekki nauðsynlegt að hafa samband við okkur nema ef ný ferðaáætlun hentar viðkomandi ekki. Það er ávallt hægt fara inn á heimasíðu félagsins og fylgjast með á svæðinu “umsjón með bókun”. Þar eru flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggja fyrir einnig er hægt að uppfæra þar upplýsingar um símanúmer og netfang farþega svo réttar upplýsingar berist hratt og örugglega,“ segir Ingibjörg Ásdís enn fremur.