Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Öll þjóðin tapar ef Snæfellsjökull hverfur

27.04.2019 - 19:17
Mynd: RÚV / RÚV
Það verður þjóðin sem tapar á því að Snæfellsjökull hverfi, segir þjóðgarðsvörður. Jökullinn verður horfinn eftir 30 ár, ef ekki verður viðsnúningur í hlýnun jarðar. Eigendur ferðaþjónustufyrirtækja segjast sjá verulegan mun á jöklinum. 

Snæfellsjökull hefur rýrnað mikið undanfarin rúmlega hundrað ár. Árið 1910 var jökullinn 22 ferkílómetrar, en nú er flatarmál hans orðið minna en 10 ferkílómetrar. Á annan í páskum fóru vísindamenn á jökulinn til þess að meta stöðuna. Jökulísinn er nú um 30 metra þykkur, en hann hefur verið að þynnast um einn til einn og hálfan metra á ári. 

„Þannig að ef hlýnunin heldur áfram eins og verið hefur, þá verður ekki mikið eftir af honum um miðja þessa öld,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Þannig að ef hlýunin heldur áfram sem horfir, þá verður hann að mestu leyti horfinn árið 2050? „Það eru miklar líkur til þess,“ svarar Þorsteinn. 

Þór Magnússon, eigandi Summit Guides, hefur búið á svæðinu í tæp 20 ár og farið með fjölmarga ferðamenn upp á jökulinn. Hann svarar því játandi aðspurður hvort hann hafi orðið var við jökulinn hopa. „Já, það fer nú ekki hjá því og við sjáum það náttúrlega sérstaklega þegar við förum þarna upp yfir og erum mikið á Blágilsjöklinum, sem er svona lægsti hlutinn hérna á norðvesturjöklinum. Þá sér maður alveg verulegan mun.“

Mikill sjónarsviptir

Jón Björnsson þjóðgarðsvörður segir breytingarnar á Snæfellsjökli hafa áhrif á svæðið. „Þetta hefur svolítil áhrif að sjálfsögðu á svæðið. Jökullinn er aðdráttarafl þjóðgarðsins, þó það fara nú kannski ekki margir upp á hann, en hann tapar svolitlu gildi á þessu. Þjóðin tapar líka, tveir þriðju hlutar þjóðarinnar hefur þennan jökul fyrir augum. Reykjavík sem dæmi, íbúar Reykjavíkur og nágrennis, þetta er eini jökullinn sem þeir sjá þannig í sjálfu sér er það kannski þjóðin í heild að tapa svolitlu.“

Þorsteinn segir það alveg skýrt, að hlýnun loftslags hafi þessi áhrif. „Það er alveg beint samhengi á milli hlýnunar loftslagsins, einkum lofthita að sumarlagi, og afkomu jökla. Og myndin sem við höfum verið að sjá síðan afkomumælingar hófust á meginjöklum er alveg skýr. Það er skýrt samhengi þar á milli.“

Þorsteinn segir að nauðsynlegt sé að gera frekari mælingar á jöklinum á næstu árum. Ástæða sé hins vegar til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni, enda gegni jöklar mikilægu hlutverki. „Þannig að það verður mikill sjónarsviptir að þeim þegar þar að kemur.“

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV