Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öll spjót standa á Boris og Trump

26.09.2019 - 10:48
Mynd: flickr / flickr
Þjóðarleiðtogar Bretlands og Bandaríkjanna, Boris Johnson og Donald Trump, eru í miklum mótbyr þessi dægrin. Boris braut lög þegar hann sendi þingið heim, það er niðurstaða hæstaréttar og Demókratar vilja hefja rannsókn á því hvort Trump verði ákærður vegna óeðlilegra samskipta við forseta Úkraínu.

Bogi Ágústsson fréttamaður fór yfir stöðuna í breskum og bandarískum stjórnmálum í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar 1. 

Í Bretlandi eru uppi háværar kröfur um afsögn forsætisráðherrans, en Boris lætur sér fátt um finnast. Hann segist einfaldlega vera ósammála dómurum hæstaréttar. Og á meðan hnakkrifist er í þinginu, líður tíminn án þess að Bretar þokist neitt áleiðis að samkomulagi við ESB um útgöngu Breta úr sambandinu þann 31. október.

Þingmenn Verkamannaflokksins gagnrýna Boris sömuleiðis fyrir óheflað orðaval sem almenningur api svo upp eftir honum og noti jafnvel í hótunar- og haturspóstum til breskra þingmanna. Svar Borisar við þessari gagnrýni var stutt: Hann sagðist aldrei hafa heyrt annan eins þvætting.

Í Bandaríkjunum hafa Demókratar ákveðið að innleiða rannsókn á því hvort ákæra eigi Donald Trump til embættismissis fyrir afglöp í starfi, en hann er talinn hafa beðið nýkjörinn forseta Úkraínu, og jafnvel beitt hann þvingunum, til þess að láta rannsaka einn skæðasta andstæðing Trumps, Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og mögulegan andstæðing Trumps í forsetakosningunum að ári. 

Donald Trump er keikur og segir þennan málatilbúnað Demókrata uppspuna og lygi og segir þá stunda mestu nornaveiðar í bandarískri sögu, og hugsanlega í gervallri mannskynssögunni.

Hægt er að hlusta á Heimsglugga Boga í spilaranum hér að ofan.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV