Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Óljóst hvort gos er hafið - viðtal

27.08.2014 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Fjórir sigkatlar hafa myndast í Vatnajökli, suðaustur af Bárðarbungu. Sigkatlarnir eru 10-15 metra djúpir og mynda 4-6 km langa línu. Þetta sást í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar í dag. Víðir Reynisson hjá Almannavörnum segir að erfitt sé að segja til um hvort gos er hafið.

Enginn gosórói hefur mælst. Almannavarnir og vísindamenn hafa fundað í kvöld um þessa atburði og Samhæfingarmiðstöð Almannavarna hefur verið ræst. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að ekkert sé fram komið sem bendi til þess að gos sé í aðsigi.

Sigurlaug Hjaltadóttir, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að sigkatlarnir séu greinileg merki um bráðnun, hvort sem það er vegna eldgoss eða mjög mikillar jarðhitavirkni. Hún segir að jarðhitavirknin hafi yfirleitt verið bundin við megineldstöðvarnar sjálfar en sigkatlarnir séu aust-suðaustur af Bárðarbungu. Talið sé að jökullinn sé 400-600 metra þykkur á þessum stað.

Sigurlaug segir að jafnvel sé talið að eldgos sé hafið eða að gosið hafi á síðustu dögum. Óvíst er hvenær sigkatlarnir mynduðust. Þeir eru staðsettir nálægt vatnaskilum. Norðan vatnaskilanna rennur vatn í Jökulsá á Fjöllum en sunnan þeirra í Grímsvötn.

Engin merki eru um vatnavexti í Jökulsá á Fjöllum. Sigurlaug segir að ef ís hefur bráðnað þurfi vatnið ekki endilega að vera komið undan jöklinum, því það gæti hafa runnið í Grímsvötn. Þá ætti íshellan að hafa risið við Grímsvötn en enn sé verið að bíða eftir mælingum um það.

Ef bræðsluvatn hefur runnið í suður tekur það vatnið nokkrar klukkustundir að renna í Grímsvötn, segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Eftir það myndi síðan líða þónokkur tími þar til hugsanlegt hlaup yrði úr Grímsvötunum, líkt og reyndin varð í Gjálpargosinu árið 1996.

Víðir Reynisson, frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, segir að sigdældirnar og sprungurnar séu sunnar en búist hafi verið við. Svæðið sé nær Gjálp, þar sem gaus 1996, á vatnaskilum Jökulsárs á fjöllum og Grímsvatna. Fyrir vikið er erfitt að spá fyrir um hvar hugsanlegt flóð kæmi undan jökli, til norðurs eða suðurs. 

Nánari upplýsingar verða birtar hér eftir því sem þær berast. Hér að neðan má lesa viðtalið við Víði.

„Það voru mjög erfiðar aðstæður til flugs og erfitt að mæla, en þarna virðast hafa myndast sigdældir, einhverjir kílómetrar á lengd og töluvert breiðar og erfitt að útskýra það með öðru en að þarna sé verulegur hiti undir. Vísindamenn sitja nú og fara yfir mælingar og bera saman mælitæki og eru að leita skýringa á þessu og þetta verður áfram unnið, en við fáum ekki endanlega niðurstöðu fyrr en seint í kvöld eða í  flugi sem er áætlað í birtingu,“ segir Víðir.

-Telja menn að gos sé hafið?

„Það er erfitt að segja til um það, ef þetta eru skyndilegar breytingar þá er erfitt að sjá annað en að þetta sé gos. Það voru mjög erfiðar aðstæður í kvöld, en þetta var ekki þarna á laugardaginn. Það sem menn eru að skoða er að töluvert af vatni kemur fram, ef þetta mikil bráðnun hefur orðið. Þannig að við erum að fara yfir þetta og verðum að fá tíma til þess fram eftir kvöldi.“

- Hafa orðið merkjanlegar breytingar á rennsli Jökulsár á Fjöllum undan jöklinum?

„Nei það er ekki að sjá neinar breytingar.“

- Eru þessar sprungur á svæðinu þar sem gangurinn byrjaði fyrst að myndast?

„Þetta er frekar sunnarlega á því svæði sem við erum að horfa á og þetta er ekki langt norðan við þar sem Gjálp gaus á sínum tíma, þannig að þetta er nálægt vatnaskilunum á Jökulsá á Fjöllum og síðan á vatnaskilum Grímsvatna.“

- Þannig að það er allt eins mögulegt að vatn renni suður?

„Það er alveg möguleiki, en eins og ég segi, það er mjög erfitt að segja út af þessum aðstæðum sem voru þarna í kvöld.“

- Hversu stórar eru þessar sigdældir?

„Þetta eru nokkrar dældir og heildarlengdin á þeim eru 4-6 kílómetrar á lengd og þær sáust ekki á laugardag.“

- Hvað sýna mælar Veðurstofunnar?

„Það hefur verið mikil jarðskjálftavirkni en það er erfitt að segja eins og er, það er verið að fara nákvæmlega yfir gögnin síðustu klukkutímana og sjá hvort þarna geti hafa orðið lítill atburður eða eitthvað slíkt, sem ekki sást á mælum, en ástæðan er fyrst og fremst þessi gríðarlega skjálftavirkni sem þarna er og það hverfur svo margt í þann hávaða og mjög erfitt að greina þetta.“

- Þannig að menn hafa ekki einhlíta skýringu á því hvenær þetta gæti hafa byrjað að myndast?

„Nei, en mat Magnúsar Tuma Guðmundssonar var að þetta væru ekki mjög gamlar sprungur,“ segir Víðir Reynisson.