Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óljóst hvort flugfreyjur WOW fái allt sitt greitt

06.12.2019 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri WOW air, segir að það liggi ekki fyrir að svo stöddu hvort það verði til nóg í þrotabúi WOW til að greiða allar forgangskröfur. Búið sé að samþykkja launatengdar forgangskröfur upp á 3,8 milljarða króna. Eignir og fjármagn þrotabúsins breytist frá viku til viku, enn er unnið að því að selja eignir félagsins, segir hann. Skiptastjórar funduðu með Flugfreyjufélagi Íslands í dag.

Sveinn Andri segir að fundurinn með lögmanni og fulltrúum Flugfreyjufélagsins sé hluti af ferlinu og ekki óvanalegur. Þetta hafi verið fyrsti fundurinn með félaginu og búast megi við að þeir verði fleiri. Farið hafi verið yfir kröfur flugfreyja, reikninga og athugað þau mál sem ágreiningur er um. Hann gaf þó ekki upp um hvað félagið og skiptastjóra greinir á um.  

Um 450 flugfreyjur eigi launatengdar forgangskröfur í búið. Mikil vinna hefur verið lögð í að fara nákvæmlega yfir allar þeirra kröfur, segir hann. Aðspurður segir hann það ekki liggja fyrir að svo stöddu hvort flugfreyjur fái greidd öll vangoldin laun og launatengd gjöld.

Ábyrgðarsjóður greiði hluta launanna og þá eigi eftir að koma í ljós hversu stóran hluta þrotabúið greiði af því sem eftir standi. Allir þeir sem eigi forgangskröfur í búið standi jöfnum fæti og fái greitt í hlutfalli við það sem fáist greitt úr búinu. Það sé stefna skiptastjóranna að greiða allar forgangskröfur og reyna að koma í veg fyrir að þær lendi á ríkissjóði. 

Vísir greindi frá því í lok nóvember að enn sé ágreiningur um kröfur sem nema um 1,3 milljarði króna. Boðað hafi verið til annars skiptafundar 30. janúar til að leysa úr þeim. Heildarupphæð þeirra sex þúsund krafna sem lýst var í búið er um 151 milljarður króna. Ekki verði tekin afstaða til almennra krafna þar sem ljóst sé að ekkert fáist greitt upp í þær.

Ekki náðist í lögmann Flugfreyjufélags Íslands við gerð fréttar.