Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óljóst hversu margar fjölskyldur verða fyrir áhrifum

03.02.2020 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ekki er vitað, hversu margar fjölskyldur verða fyrir áhrifum af breytingum dómsmálaráðherra á reglugerð um málsmeðferð Útlendingastofnunar, sem hún ákvað að ráðast í um helgina. Rauði krossinn fagnar breytingunni.

Íslensk stjórnvöld ákváðu um helgina að vísa ekki pakistanska drengnum Muhammed og fjölskyldu hans af landi brott í dag, líkt og til stóð. Í yfirlýsingu á vef dómsmálaráðuneytisins sem birtist í gær kemur fram að samkvæmt lögum um útlendinga sé heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Dómsmálaráðherra ætlar að kynna í ríkisstjórn áform um að stytta hámarkstíma málsmeðferðar úr átján mánuðum í sextán í hælismálum þar sem börn eiga í hlut. Brottvísun Muhammeds og annarra barnafjölskyldna sem hafa verið hér lengur en í sextán mánuði hefur því verið frestað. 

Ekki mikill fjöldi

Kristjana Fenger, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, segir að þetta séu jákvæð skref.

„Rauða krossinum þykir þessi tíðindi mjög gleðileg. Við teljum þetta vera rétta niðurstöðu fyrir þessa fjölskyldu. Þessi breyting er skref í rétta átt en við teljum að það sem þurfi að skoða í stóra samhenginu sé ekki frestir á málsmeðferð heldur heildardvalartími fjölskyldna og einstaklinga hér á landi,“ segir Kristjana.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun í morgun er ekki hægt að svara því á þessari stundu, hversu margra fjölskyldna þessi reglugerðarbreyting ráðherra nær til, fyrr en búið er að útfæra hana. Kristjana segir að Rauði krossinn viti það ekki nákvæmlega heldur.

„En í stóra samhenginu er þetta kannski ekki mikill fjöldi. En aftur á móti er það gríðarlega mikilvægt að skilvirkni í málsmeðferð sé gert hátt undir höfði en hún má að sjálfsögðu ekki koma niður á vandvirkni í málsmeðferð.“

Hafið þið einhverja tilfinningu fyrir því hvað þetta gætu verið margar fjölskyldur? 5, 10, 20?

„Einhvers staðar á því bili. Það er allt í skoðun og ég veit að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála eru líka að skoða það og við munum fylgja því vel eftir í framhaldinu,“ segir Kristjana.