Olíufélögin unnu samráðsmálið

22.03.2012 - 11:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi rétt í þessu úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sektargreiðslur vegna samkeppnisbrota. Ríkið verður að greiða olíufélögunum samanlagt um einn og hálfan milljarð króna.

Dómurinn var kveðinn upp klukkan ellefu. Rétt eftir að hann var kveðinn upp sagði lögmaður ríkisins að dómnum yrði mjög líklega áfrýjað. Hann átti þó eftir að fara yfir dóminn og segir endanlega ákvörðun tekna að því loknu.

Sektin sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála lagði á olíufélögin nam 1.505 milljónum króna þegar úrskurðurinn var kveðinn upp 28. janúar 2005.

 

Margra ára slagur

Aðalmeðferð í olíusamráðsmálinu fór fram í Héraðdsdómi Reykjavíkur um síðustu mánaðamót. Málið á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1997 þegar Neytendasamtökin kærðu olíufélögin fyrir samráð. Rannsókn málsins lauk árið 2004.

Niðurstaða hennar var sú að olíufélögin Ker, Olíuverslun Íslands og Skeljungur hafi haft með sér yfirgripsmikið og óslitið samráð um verð, markaðsskiptingu og gerð tilboða.

Félögin áfrýjuðu en áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti niðurstöðuna og sektin nam 1,5 milljarði. Olíufélögin stefndu þá ríkinu og samkeppnisyfirvöldum og nú sjö árum síðar er dómur fallinn í héraðsdómi en málið kemur væntanlega til kasta Hæstaréttar. Ástæða tafanna hefur verið sú að olíufélögin vildu að dómskvaddir matsmenn myndu meta forsendur sektarinnar. Síðan málið var þingfest hafa því fjölmargar matsgerðir verið unnar og lagðar fram, sú síðasta í janúar á þessu ári. Niðurstaða hennar var að Olíufélagið og Olís hafi ekki grætt á samráðinu en Skeljungur hafi hins vegar gert það og það töluvert. Matsgerðin var unnin að beiðni olíufélaganna sjálfra.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi